Á­kæru­frestur fram­lengdur í máli Sverris

Sverrir var handtekinn á heimili sínu í Rio de Janeiro.
Sverrir var handtekinn á heimili sínu í Rio de Janeiro. Ljósmynd/Colourbox

Brasilíska alríkislögreglan hefur fengið ákærufrest sinn, vegna rannsóknar á máli Sverris Þórs Gunnarssonar, framlengdan. Sverrir var handtekinn í Rio de Janeiro í umfangsmiklum aðgerðum lögreglunnar þann 12. apríl síðastliðinn og hefur neitað að svara spurningum við yfirheyrslur.

„Fresturinn var framlengdur í gær. [...] Hér í Brasilíu getur gæsluvarðhald staðið til réttarhalda það er bara rannsóknin sem hefur ákveðinn frest,“ segir Thiago Giavarotti, yfirlögregluþjónn hjá brasilísku alríkislögreglunni í samtali við mbl.is.

Hámarkstímaramminn sem að lögreglan í Brasilíu hafi til þess að gefa út ákæru séu þrjátíu dagar. Hefðbundinn frestur sé fimmtán dagar en getur verið framlengdur sé þess þörf.

Framsal ekki möguleiki

Fyrr í mánuðinum var talið líklegt að Sverrir yrði ákærður innan þess hefðbundna fimmtán daga frests sem gefinn er og að sterk sönnunargögn væru til staðar í málinu. Endi handtaka Sverris með ákæru þykir líklegt að það verði fyrir fíkni­efna­smygl og pen­ingaþvætti.

Greint hefur verið frá því að framsal Sverris til annarra landa sé ekki möguleiki. Hann eigi brasilíska konu og börn sem fædd séu þar í landi, í slíkum tilfellum sé framsal ekki heimilað.

Í dag eru fjórtán dagar liðnir frá því að Sverrir var handtekinn í tengslum við Match Point-aðgerðirnar í Brasilíu. Meira en tvö hundruð lögregluþjónar tóku þátt í aðgerðunum, meðal annars frá Íslandi og Ítalíu.

Í aðgerðunum lagði lög­regla hald á 65 kíló af kókaíni, 225 kíló af kanna­bis­efn­um og 57 fast­eign­ir auk öku­tækja og skipa ásamt því að loka fyr­ir banka­reikn­inga 43 ein­stak­linga.

Lög­regl­an tel­ur verðmæti eign­anna sem lagt var hald á geta numið um 150 millj­óna bras­il­ísks ríal eða um 4,2 millj­örðum ís­lenskra króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert