Magnús Aron fékk 16 ára dóm í Barðavogsmáli

Magnús Aron fékk 16 ára dóm.
Magnús Aron fékk 16 ára dóm. mbl.is/Arnþór

Magnús Aron Magnússon var dæmdur til 16 ára fangelsisvistar fyrir manndráp af ásetningi í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Er hann sakfelldur fyrir að hafa orðið Gylfa Bergmanni Heimissyni að bana í júní á síðasta ári. 

Eins var Magnús gert að greiða bætur upp á rúmar þrjátíu milljónir króna til föður, systkina og barna Gylfa. Hæstu einstöku bætur voru dæmdar til barns upp á rúmar 10 milljónir króna. Vísir greindi fyrst frá. 

Arnþrúður Þórarinsdóttir, saksóknari í málinu, segir að dómurinn hafi verið eftir væntingum embættisins. „Þetta var eftir því sem saksóknari lagði upp með. Bæði hvað varðar um hvaða brot er að ræða. Manndráp af ásetningi og líka varðandi refsilengdina,“ segir Arnþrúður. 

Magnús Aron neitaði sök í málinu en verjandi fór fram á að hann yrði aðeins dæmdur fyrir líkamsárás sem leiddi til andláts. 

Gylfi lést af völdum heilablæðingar sem og áverka á andliti sem torvelduðu öndun. Læknar sem gáfu skýrslu fyrir dómi sögðu árásina vera með því ofsafyllsta sem sést í árásum þar sem ekki er áhald notað. 

Við aðalmeðferð málsins gerðu dómskvaddir geðlæknar grein fyrir mati sínu á Magnúsi en hann var metinn sakhæfur. Sögðu geðlæknar þó að sterkur grunur léki á um að hann væri einhverfur eða hafi mögulega þróað með sér persónuleikaröskun vegna ofbeldis og vanrækslu í æsku. 

Við réttarhöldin var reynt að svara því hvort refsing myndi bera árangur sökum þess að Magnús Aron glími við miklar áskoranir. Voru geðlæknar sammála um að hegðun Magnúsar hefði batnað í fangelsinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert