NiceAir flýgur ekki í sumar

Ljóst er að NiceAir mun ekki fljúga frá Akureyri í …
Ljóst er að NiceAir mun ekki fljúga frá Akureyri í sumar. mbl.is/Þorgeir Baldursson

Ljóst er að flugfélagið NiceAir mun ekki fljúga frá Akureyri í sumar og hefur öllu starfsfólki verið sagt upp, alls 16 manns. Þetta staðfestir Þor­vald­ur Lúðvík Sig­ur­jóns­son, fram­kvæmda­stjóri NiceA­ir, í samtali við mbl.is. 

Í byrjun mánaðar var greint frá því að öllum flugferðum félagsins var aflýst og hlé gert á starfsemi þess. Air­bus-flug­vél­in sem NiceA­ir hafði und­ir hönd­um var tek­in af fé­lag­inu í Kaup­manna­höfn en NiceAir leigði vélina af leigufélaginu HiFly. Avalon Aircraft Leasing á vél­ina sem HiFly fram­leigði til NiceA­ir. 

„Stjórn og hluthafar eru að meta stöðuna, hvenær hægt verði að fara af stað og á hvaða forsendum það sé hægt að gera. Það er auðvitað mikil óvissa uppi og hvenær það myndi geta gerst, og þá hverjir myndu vera um borð,“ segir Þorvaldur. 

Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdarstjóri og stofnandi Niceair.
Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdarstjóri og stofnandi Niceair. mbl.is/Þorgeir Baldursson

Telur þú þá vera meiri líkur en minni að NiceAir hefji aftur flug?

„Hvort að við gerum það á óbreyttum forsendum eða breyttum forsendum eða einhverjir aðrir komi inn, þá er stóra málið það að við erum búin að sýna fram á að þetta er vit,“ segir Þorvaldur og bætir við að góð nýting hafi verið á flugi NiceAir til Kaupmannahafnar. Þá virðist einnig vera markaður fyrir flug til sólarlanda einu sinni í viku, allt árið um kring.

NiceAir ætlaði að fljúga til Bretlands en ekki varð af þeim áætlunum. Þorvaldur segir að áætlanirnar hafi verið lykilþáttur í viðskiptaáætlun NiceAir. 

„En við höldum að með því að geta farið til Bretlands í framtíðinni þá muni viðskiptamódelið bara batna,“ segir hann og ítrekar að töluvert vit sé í að fljúga um aðra flugvelli en Keflavíkurflugvöll. 

Vélin ekki í brotajárn

Spurður hvort að NiceAir hafi verið í sambandi við HiFly um afdrif flugvélarinnar sem var kyrrsett segir Þorvaldur að NiceAir hafi verið í sambandi við ýmsa aðila. 

„En það er verið að reyna loka þeim kafla í okkar sögu, sem að fór fremur illa með okkur.“

Þorvaldur segist ekki vita hvar flugvélin er núna. Víst er þó að vélin fór ekki í brotajárn. 

Búið að endurgreiða korthöfum

Spurður út í endurgreiðslur til viðskiptavina segir Þorvaldur að búið sé að endurgreiða öllum korthöfum fyrir sumarið og næsta vetur. 

„Þannig að við erum búin að fara fram á endurgreiðslur inn á þeirra kort og það mun síðan skýrast á næstunni hvernig verður farið með þá sem að greiddu á annan máta.“

NiceAir tryggði sér 200 milljón króna fjárfestingu og segir Þorvaldur að ekki hafi verið búið að kalla það fé inn og að búið sé að loka áskriftartilboðum. 

„Þannig að við vorum búin að loka fjármögnun, eða áskriftum að fjármagni, þegar að við misstum vélina og það þýðir að við kölluðum ekki inn þessa fjármögnun.“

mbl.is