Skora á meirihlutann að endurskoða ákvörðunina

Leggja á Héraðsskjalasafn Kópavogs niður.
Leggja á Héraðsskjalasafn Kópavogs niður. mbl.is/Árni Sæberg

Flokkur Vinstri grænna í Kópavogi hefur lýst yfir andstöðu við bæjarstjórn um stefnu í menningarmálum og tekur undir með minnihlutanum.

Á fundi bæjarstjórnar á þriðjudag voru samþykktar breytingar á starfsemi menningarhúsa Kópavogsbæjar, en meðal annars verður Héraðsskjala­safn Kópa­vogs lagt niður.

Vinstri grænir lýsa furðu sinni á samþykktunum. Í tilkynningu frá flokknum segir að erfitt sé „að meta allar þær ákvarðanir sem þarna voru teknar með samþykkt tólf tillagna bæjarstjóra á grundvelli greiningar fyrirtækisins KPMG“.

Í því samhengi er vísað til bókunar minnihlutans frá fundinum þar sem meðal annars segir: „Allar tillögur bæjarstjóra eru ótækar til ákvörðunar í bæjarstjórn vegna skorts á nauðsynlegum upplýsingum.“

Skilningur KPMG á menningarmálum nánast enginn

„Af greinargerðum forstöðumanna menningarhúsanna (Náttúrufræðistofu Kópavogs, Gerðarsafns, Salarins, Bókasafns Kópavogs og Héraðsskjalasafns Kópavogs) má ráða að lítið samráð hefur verið haft við þá. Fram kemur að þeir eru ósammála ýmsu í þessum ákvörðunum þótt sumt megi skoða,“ segir í tilkynningunni og þá eru rangfærslur í skýrslu KPMG gagnrýndar, meðal annars í ljósi þess að „að skilningur sérfræðinga KPMG á menningarmálum væri nánast enginn“.

„Stjórn VG í Kópavogi krefst þess að hverskyns endurskipulagning á starfsemi menningarhúsa bæjarins sé framkvæmd í samstarfi og sátt við starfsfólk þeirra og í opnu og vönduðu ferli á pólitískum vettvangi. Stjórn VG í Kópavogi tekur undir með minnihluta bæjarstjórnar sem greiddi atkvæði gegn þessari ákvörðun og skorar á meirihlutann að endurskoða hana.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert