„Völlurinn er ekki að fara“

Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.
Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Arnþór

Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði Reykjavíkurflugvöll þurfa að vera áfram í Vatnsmýrinni. Hann sé miðstöð innanlandsflugs, skapi fyrir það öryggi, mæti þörfum sjúkraflugs og sé brú milli landsbyggðar og höfuðborgar.

Einnig sé hann mikilvægur varaflugvöllur í millilandaflugi.

Undir dagskrárliðnum Störf þingsins á Alþingi sagði hún fyrirliggjandi samkomulag ríkis og borgar frá 2019 vera grundvallarplagg í þessum efnum þar sem fram kemur að rekstraröryggi á Reykjavíkurflugvelli haldist óbreytt að lágmarki næstu 20 til 30 árin, eða þangað til annar jafngóður eða betri kostur finnst.

Breytt áform í deiliskipulagi

Líneik Anna nefndi jafnframt skýrslu sem kom út í síðustu viku um áhrif byggðar og framkvæmda á flug- og rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar þar sem kemur fram að hægt er að byggja í Vatnsmýrinni án þess að það hefði óásættanleg áhrif á flugvöllinn.

„Reykjavíkurborg í samvinnu við Isavia yfirfara nú deiliskipulag í samræmi við ábendingar úr skýrslunni og þannig þarf að nota það sem þar kemur fram til að breyta áformum á deiliskipulagi. Það er leiðin sem borgin getur notað til að standa við samninginn frá 2019, byggt nýjan Skerjafjörð, án þess að skerða rekstraröryggi flugvallarins,” sagði hún og bætti við að vinna þurfi úr þeim veðurmælingum sem til eru um flugvelli landsins, bæta við vindmælingum, meta áhrif trjágróðurs og byggja nýja flugstöð í Vatnsmýrinni.

„Völlurinn er ekki að fara og flug í Vatnsmýrina skerðist ekki næstu 20 til 30 árin,” sagði hún.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert