Ekki hægt að tryggja SMS-boð um rýmingu

Björgunarsveitarmenn að störfum í Neskaupstað eftir snjóflóðin.
Björgunarsveitarmenn að störfum í Neskaupstað eftir snjóflóðin. Ljósmynd/Landsbjörg

Ekki er hægt að tryggja að öll símtæki innan rýmingarsvæðis fái SMS-boð um rýmingu. Þetta kemur fram í skriflegu svari Almannavarna við fyrirspurn mbl.is. 

Váboðskerfi Neyðarlínunnar er nýtt til að koma skilaboðum til fólks þegar rétt þykir og ákveðið af þeim sem eru í forsvari aðgerða hverju sinni.

Í svari Almannavarna segir að algengur misskilningur sé að hægt að sé að tryggja að SMS-boð berist í öll símtæki sem staðsett „eru á ákveðnu landsvæði eða innan „girðingarinnar“ sem sett er upp (hnit)“.

Ekki allir fengu SMS-boð

Í umfjöllun Austurfréttar um snjóflóðin sem féllu á Austfjörðum í mars hefur komið fram að hluti íbúa hafi ekki fengið SMS-boð um rýmingar. Sami galli hafi komið upp í skriðuföllunum á Seyðisfirði árið 2020.

„SMS-kerfið virkar þannig að óskað er eftir því að skilaboð berist til fólks á ákveðnu landsvæði (hnitin send á símafyrirtækin ásamt texta). Kerfi símafyrirtækjanna reikna út hvaða símar eru á svæðinu og sendir því næst boðin í þá. Tæknin (kerfið) býður ekki upp á það að hægt sé að tryggja að öll tæki innan svæðisins fái skilaboðin og að tæki utan svæðisins fái þau ekki,“ segir í svari Almannavarna.

Ekki einungis stuðst við váboðskerfið

Þar kemur jafnframt fram að tilfellin, þar sem að skilaboð berast ekki í síma innan svæðis eða berast í síma utan svæðis, gerist en séu fá. 

„Þrátt fyrir þessa annmarka hafa SMS-skilaboðin gagnast vel og þjónað sínum tilgangi að koma skilaboðum til íbúa.“

Þá segir jafnframt að framkvæmd rýmingar séu á ábyrgð lögreglu og því sé ekki einungis stuðst við váboðskerfið heldur fari lögregla og viðbragðasaðilar til íbúa í þeim húsum sem á að rýma. 

mbl.is