Fastafloti NATO með viðkomu á Íslandi

Ljósmynd/Stjórnarráðið

Fimm skip úr fastaflota Atlantshafsbandalagsins hafa nú skamma viðdvöl í Reykjavíkuhöfn. Skipin tóku þátt í kafbátaleitaræfingunni Dynamic Mongoose sem lýkur formlega í dag.

Kafbátaeftirlitsæfingin Dynamic Mongoose 2023 hefur undanfarna daga farið fram á hafsvæðinu milli Íslands og Noregs. Æfingin er á vegum Atlantshafsbandalagsins en Ísland er að þessu sinni gestgjafaríki hennar, að því er segir á vef Stjórnarráðsins. 

Fimm skip sem tóku þátt í æfingunni eru komin til hafnar í Reykjavík og fer þar fremst í flokki þýska freigátan Mecklenburg Vorpommern. Auk fastaflotans kemur breska freigátan HMS Northumberland sem æft hefur með flotanum að undanförnu. Skipin halda svo héðan um eða upp úr helgi.

Kafbátaleitaræfingin Dynamic Mongoose hefur farið fram árlega frá 2012. Markmið hennar er að auka getu bandalagsríkja til að vinna saman að kafbátaeftirliti við flóknar og krefjandi aðstæður og æfa sameiginleg viðbrögð við aðsteðjandi ógnum, segir enn fremur. 

mbl.is