Hrinunni ekki lokið þótt allt sé með kyrrum kjörum

Horft til vesturs yfir Mýrdalsjökul og Kötlu.
Horft til vesturs yfir Mýrdalsjökul og Kötlu. mbl.is/RAX

Allt var með kyrrum kjörum í og við Mýrdalsjökul í nótt. Engir jarðskjálftar hafa mælst þar síðan í gær.

Þetta segir Böðvar Sveinsson, náttúruvásérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.

Því hefur dregið verulega úr skjálftahrinunni í jöklinum sem hófst á fimmtudaginn, sem er sú öflugasta í sjö ár. Snemma þann dag höfðu tíu skjálftar á bilinu þrír til fjórir að stærð gengið yfir. 

Böðvar tekur þó fram að þetta þýði ekki endilega að skjálftahrinunni sé lokið og segir of snemmt að dæma um það og að hún gæti tekið við sér aftur.

Að sögn Böðvars var allt með kyrrum kjörum á öllu landinu í nótt fyrir utan smávægilega og eðlilega skjálftavirkni við Herðubreið. 

mbl.is