Riðurannsókn tefst vegna bruna á tilraunastöð

Rannsóknir á riðu og öðrum hæggengum sauðfjársjúkdómum hafa farið fram …
Rannsóknir á riðu og öðrum hæggengum sauðfjársjúkdómum hafa farið fram á Keldum frá upphafi stofnunarinnar. Samsett mynd

Eldur, sem kom upp nýlega í tilraunastöð Háskóla Íslands að Keldum, hafði þau áhrif að riðugreining á stofnuninni liggur nú tímabundið niðri. Ekki var um mikinn eld að ræða, en hann hafði þó þessi áhrif.

Föstudaginn 28. apríl kviknaði í rafmagnstöflu á tilraunastöðinni. Stefanía Þorgeirsdóttir, líffræðingur á veiru- og sameindalíffræðideild á Keldum, segir í samtali við mbl.is að eldurinn hafi leitt til reykskemmda í húsinu.

„Það kviknaði í rafmagnstöflu á neðstu hæðinni í einu af húsunum okkar og rannsóknarstofan er á sömu hæð. Það urðu reykskemmdir og við þurftum að flytja stofuna tímabundið og hreinsa tæki,“ segir Stefanía.

Hún segir að tækin hafi verið færð á aðrar hæðir eða í aðrar byggingar.

Hefst vonandi aftur í þessari viku

„Við eigum eftir að athuga hvort allt virki eins og það á að gera,“ segir Stefanía. Hún segist ekki vita hvort tæki hafi orðið fyrir skemmdum. Hún segir að það verði allt metið í þessari viku. Það eigi eftir að sjá hvort tækin skili réttum niðurstöðum úr prófum.

Stefanía segir að atvikið komi að sök, þar sem að undanförnu hafi rannsóknarteymið aðallega skoðað sýni úr þeim hræjum sem hafi verið urðuð. Við erum að skoða sýni úr þessum hjörðum og athuga hvort það séu viðbótartilfelli í þeim. Hún segir að greiningin muni tefjast um eina til tvær vikur.

„Við erum að reyna að koma þessu af stað í þessari viku. Ef öll tækin virka ætti þetta að vera komið í gang í lok vikunnar,“ segir hún að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert