Kannast ekki við áform borgarinnar

Undanfarið hefur viðhaldsdeild bygginga unnið að undirbúningi stórrar endurnýjunar á …
Undanfarið hefur viðhaldsdeild bygginga unnið að undirbúningi stórrar endurnýjunar á eldri hluta skólans, sem miðar m.a. að því að gera friðaðan útvegg vatnsheldan án þess þó að raska upprunalegu útliti. mbl.is/Sigurður Bogi

Áætlað er að framkvæmdir vegna rakaskemmda, leka og myglu í Laugarnesskóla geti hafist vorið 2024 og að þær taki um tvö ár. Þangað til verður unnið að undirbúningi þess að koma upp færanlegu húsnæði á lóð skólans og sameina þannig aftur skólastarfið. Þetta kemur fram í svari Dags B. Eggertssonar borgarstjóra við fyrirspurnum mbl.is, en stjórnendur skólans segja það þó ekki í samræmi við þau svör sem skólinn hefur fengið. Þeir segja þó skilning vera hjá borginni um að aðgerða sé þörf.

Dagur segir að skólastjórar og fulltrúar starfsfólks séu reglulega upplýstir á fundum og í gegnum önnur samskipti, um stöðu framkvæmda, og fái þannig að taka virkan þátt í ákvarðanatöku um næstu skref.

Eins og mbl.is greindi frá á mánudag sendi starfsfólk Laug­ar­nesskóla opið bréf til Dags þar sem það krafðist úrbóta á starfsaðstæðum sínum og nemenda í Laugarnesskóla.

Í bréf­inu kom fram að í mörg ár hefðu nem­end­ur og starfs­fólk skól­ans unnið í heilsu­spill­andi starfs­um­hverfi vegna myglu, raka­skemmda og leka. Ítrekað hafi þurft að skipta um stof­ur meðan plástrað sé yfir myglu og raka­skemmd­ir og starfs­fólk hrökklast úr starfi vegna veik­inda. 

Minjastofnun heimilar ekki að húsið verði klætt

Í svörum Dags kemur fram að Laugarnesskóli sé í fyrsta forgangi í viðhalds- og endurnýjunarátaki Reykjavíkurborgar. Undanfarið hefur viðhaldsdeild bygginga unnið að undirbúningi endurnýjunar á eldri hluta skólans sem miðar m.a. að því að gera friðaðan útvegg vatnsheldan án þess þó að raska upprunalegu útliti skólans. Metnaðarfullar endurnýjunaráætlanir gera m.a. ráð fyrir að stórbæta innivist skólans, bæði með öflugri loftræstingu og mun betri hljóðvist i kennslustofum og ekki síst í sal skólans. Áætlað er að þessar framkvæmdir geti hafist vorið 2024 og að þær taki um tvö ár. Þangað til hefur verið sett upp síða á vef Reykjavíkurborgar þar sem birtar verða upplýsingar um framkvæmdir í Laugarnesskóla.

Björn Gunnlaugsson, aðstoðarskólastjóri skólans, segir það hafa legið töluvert lengi fyrir að eitthvað sé að. Farið hafi verið í úttekt á skólanum síðastliðið sumar og ljóst að ráðast þurfi í miklar endurbætur og viðhald. Upphaflega hafi staðið til að fara í þær strax á þessu ári en þar sem ytra byrði hússins er friðað, leyfir Minjastofnun ekki að húsið verði klætt. Að sögn Björns er það þar sem „hnífurinn stendur í kúnni.“ „Menn eru að reyna eftir bestu getu að finna tæknilega útfærslu til að laga ytra byrði hússins almennilega en virða á sama tíma friðunarákvæði. En með því að klæða skólabygginguna að utan væri hægt að koma í veg fyrir að vatnið leki inn í húsið í einhverja áratugi.

Jafnframt hefur tillaga verið send á Minjastofnun þess efnis hvort klæða mætti húsið að utan, þannig að einfalt yrði að fjarlægja klæðninguna aftur þegar hægt verður að ráðast í endurbætur á ytra byrði hússins. Björn segir því hins vegar hafa verið hafnað af Minjastofnun. 

Kannast ekki við áform Dags 

Dagur segir ljóst að flytja þurfi starfsemi skólans að miklu leyti út úr núverandi skólabyggingum svo hægt verði að fara í umfangsmikla endurnýjun á húsnæðinu. Nú sé unnið að undirbúningi þess að koma upp færanlegum kennslustofum á lóð skólans en mikið verk er fyrir höndum við að hanna og útvega gott húsnæði fyrir skólann, þar sem helstu kröfum verður fylgt eftir. 

Ljóst er að að minnsta kosti eitt skólaár á eftir að líða þar til farið verður í framkvæmdir. Á yfirstandandi skólaári hefur 75 nemendum verið kennt í húsnæði KSÍ. Rúna Björg Garðarsdóttir, kennari við skólann og ein þeirra sem fór fyrir bréfinu, segir að þó ekki sé langt að sækja í skólabygginguna úr húsnæði KSÍ, þá finni hún að tengsl bæði kennara og nemenda við skólann fjari smám saman út. Til stóð að árgangurinn myndi flytjast í færanlegar kennslustofur í október 2022 en nýlega hafi borist svör um að húsin yrðu ekki sett upp vegna kostnaðar. 

Í svari Dags við fyrirspurnum mbl.is kemur hins vegar fram að unnið sé að undirbúningi þess að koma upp færanlegu húsnæði á lóð skólans og sameina þannig aftur skólastarfið. Að sögn Björns er það þó ekki í samræmi við þau svör sem skólinn hefur fengið. Hann fagnar því þó ef rétt reynist og biðlar til Dags um að hafa samband við sig og láta vita hvenær von er á húsnæðinu. Björn kannast samt sem áður við áform um að koma eigi upp færanlegu húsnæði þegar farið verður í framkvæmdir á skólanum 

Annaðhvort að þrengja að eða nota húsnæði KSÍ

Björn tekur í sama streng og Rúna og segir reynsluna af því að vera með árgang í þessari fjarlægð verða til þess að skólastjórnendur vilji frekar leggja allt í sölurnar og gera það sem þeir geta til þess að tryggja að skólastarf geti allt farið fram í húsnæði skólans. 

Þar sem skólinn hefur ekki upplýsingar um að setja eigi niður færanlegt húsnæði á lóð skólans fyrir komandi skólaár, hefur verið ákveðið að þrengja að starfseminni frekar en að nýta áfram húsnæði KSÍ. Þegar er búið að tryggja nægt framboð af skólastofum en að sögn Björns má ekkert út af bregða til að það klikki. Í vetur hefur tekist að færa nemendur í önnur rými þegar upp koma lekavandamál en á næsta skólaári verður minna svigrúm til þess, ef eitthvað. 

Í sumar er ráðgert að fara í bráðabirgðaviðgerðir á um það bil 10 kennslustofum skólans, eða í þeim stofum þar sem vitað er um minniháttar lekaskemmdir. Þetta verður gert til að tryggja að hægt verði að hefja skólastarf í haust og vonandi koma í veg fyrir að fara þurfi í jafn mikið af staðbundnum vandamálum og þörf hefur verið á undanfarin ár. Hvernig það verður leyst ef upp koma vandamál verður tíminn að leiða í ljós. 

Ekki í boði að fresta síendurtekið framkvæmdum

Að sögn Rúnu er skilningur á málinu og allir meðvitaðir um hvað þarf að gera. Þrátt fyrir það er bara beðið, „það er beðið í kreppu, það er beðið í heimsfaraldri, það er beðið í góðæri, hvenær má gera eitthvað?“

Björn og Rúna segjast bæði hafa séð eftir hæfileikaríku starfsfólki, meira en áratugur sé síðan fyrsti starfsmaður hætti störfum af heilsufarsástæðum og síðan þá hafi fleiri látið af störfum af sömu ástæðu. Áhyggjur eru ekki bara af alvarlegum einkennum vegna myglu, sem koma fram hjá fáeinum, heldur líka af skaðlegum áhrifum sem hún getur haft á aðra, þó einkennin séu ekki jafnalvarleg. 

mbl.is