„Það vantar þennan skóla“

Mygla greindist í ókláraðri byggingunni samkvæmt heimildum Morgunblaðsins. Framkvæmdum átti …
Mygla greindist í ókláraðri byggingunni samkvæmt heimildum Morgunblaðsins. Framkvæmdum átti að ljúka í þessum mánuði. mbl.is/Hákon Pálsson

Sigurbjörg Erla Egilsdóttir, bæjarfulltrúi Pírata í Kópavogi, telur mikla óvissu og áhættu fylgja því að rifta samningnum við verktaka nýs Kársnesskóla. Bæjarstjórn Kópavogs samþykkti í gær heimild til að rifta samningnum á þeirri forsendu að gallar hefðu verið á verkinu og verktakinn ekki sinnt fullnægjandi úrbótum.

Sigurbjörg sat sjálf hjá við atkvæðagreiðsluna ásamt fulltrúa Samfylkingarinnar, en fulltrúi Viðreisnar greiddi gegn heimildinni. 

Sigurbjörg Erla Egilsdóttir, bæjarfulltrúi Pírata í Kópavogi.
Sigurbjörg Erla Egilsdóttir, bæjarfulltrúi Pírata í Kópavogi. Ljósmynd/Aðsend

Tafir og aukinn kostnaður

Í samtali við mbl.is kveðst Sigurbjörg hafa áhyggjur af röskunum á byggingu skólans, verði samningnum rift, vegna tafa sem geta orðið á framkvæmdum, og auknum kostnaði fyrir bæjarfélagið.

Hún telur verktakaskipti almennt hafa neikvæð áhrif á gæði verks, þar sem ábyrgð gæða verði óskýrari eftir því sem fleiri komi að verkinu.

„Það er svo mikil óvissa sem fylgir því að rifta og mér finnst mikilvægt að það sé leitað allra leiða til að ná samningum áður en það er farið út í það. Þá finnst mér ekki góður bragur að fara út í það að hóta að rifta, ef við ætlum að reyna að ná samkomulagi,“ segir Sigurbjörg. 

Hún segir viðræður enn í gangi og að samningnum hafi ekki enn verið rift þó svo að bæjarstjórn hafi nú heimild til þess að gera það.

Bæjarstjórn Kópavogs hefur fengið heimild til að rifta samningi við …
Bæjarstjórn Kópavogs hefur fengið heimild til að rifta samningi við verktaka Kársnesskóla. mbl.is/Hákon Pálsson

Enn samningsvilji af hálfu verktakans

Kópavogsbær sóttist eftir heimild til að rifta samnignum vegna vanefnda verktakans. Að sögn Sigurbjargar hefur verktakinn einnig haldið fram vanefndum bæjarins og gert kröfu um framlengingu á verktíma og bætur vegna þeirra.

Sigurbjörg segir meintar vanefndir bæjarins m.a. vera að Kópavogsbær hafi gert breytingar á hönnun verksins, en neitað verktakanum um lengri tímafrest til að verða við breytingum.

Henni skilst að enn sé samningsvilji af hálfu verktakans og telur því öllum fyrir bestu að samkomulagi sé náð við hann, svo verkið verði klárað sem fyrst og skólinn tekinn í notkun.

„Það vantar þennan skóla,“ segir Sigurbjörg.

Ekki að tala um afslátt á gæðum

Á forsíðu Morgunblaðsins í dag kom fram að blaðið hefði heimildir fyrir því að myglusveppur hefði greinst í ókláraðri byggingunni og lekar inn með nýjum gluggum uppgötvast.

Bæjarstjórn Kópavogs hefur ekki opinberað gögn um galla verksins. 

Sigurbjörg kveðst ekki geta tjáð sig um hvort svo sé en að gæði séu að sjálfsögðu í forgangi.

„Ég er ekki að tala um að gefa neinn afslátt á gæðunum,“ segir Sigurbjörg. Hún fari aðeins fram á það að samkomulagi verði náð við verktakann, ef hann fallist á að ljúka verkinu eins og um var samið og uppfylli öll viðmið um gæði.

mbl.is