Tilnefndir sem uppfinningamenn ársins í Evrópu

Þorsteinn Loftsson og Einar Stefánsson þróuðu meðferð til þess gera …
Þorsteinn Loftsson og Einar Stefánsson þróuðu meðferð til þess gera meðhöndlun sjónudepilsbjúgs af völdum sykursýki auðveldari. Ljósmynd/Aðsend

Þorsteinn Loftsson og Einar Stefánsson tilnefndir sem uppfinningamenn ársins 2023 í Evrópu fyrir þróun á meðferð til þess gera meðhöndlun sjónudepilsbjúgs af völdum sykursýki auðveldari og bæta lífsgæði sjúklinga sem þjást af sjúkdómum í sjónhimnu.

Þetta kemur fram í tilkynningu, en þar kemur enn fremur fram að 37 milljónir manna þjást af sjónudepilsbjúg af völdum sykursýki á heimsvísu, sem er það er helsta orsök blindu hjá sykursjúkum samkvæmt Alþjóðlegu sykursýkissamtökunum.

Meðhöndlun sjónudepilsbjúgs hefur hingað til falið í sér að sprauta lyfjum í bakhluta augans en Þorsteinn og Einar hafa hafa þróað tækni sem gerir kleift að þróa lyf í formi augndropa sem hægt er að ferja í afturhluta augans. Þetta gerir meðferðina aðgengilega fyrir stærri hóp sjúklinga.

Fyrir þessa uppfinningu eru Þorsteinn og Einar tilnefndir til verðlauna sem uppfinningamenn ársins 2023 í Evrópu í flokki rannsókna, ásamt tveimur öðrum aðilum sem valdir voru úr hópi 600 tilnefndra í ár.

Tókst „hið ómögulega“

Þorsteinn og Einar vonast til þess að umbylta því hvernig hægt er að veita sjúklinga meðferð við augnsjúkdómum og ná fyrr til þeirra, jafnvel á dreifbýlum svæðum og í þróunarríkjum.

Þorsteinn starfaði í áratugi sem prófessor við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands og aðra háskóla fram til ársins 2020. Auk þess var hann einn stofnenda fyrirtækisins Oculis árið 2016.

Einar er prófessor emeritus við Háskóla Íslands og hefur verið yfirlæknir á augndeild Landspítalans frá árinu 1989. Einar segir uppfinningu þeirra félaga afrakstur áratugarannsókna.

„Nokkrir starfsfélaga okkar, sem mætti kalla helstu áhrifamenn á þessu sviði, hafa ítrekað fullyrt í ræðu og riti, jafnvel á síðustu 10 árum, að okkur hafi tekist hið ómögulega,“ segir Einar í tilkynningunni en þar kemur fram að nokkrar rannsóknir hafi verið gerðar sem sýna að þessi nýja tækni virki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert