Verkföll hefjast á mánudag

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB. mbl.is/Eggert

Verkfallsaðgerðir BSRB hefjast á mánudaginn. Fundur BSRB og Sambands íslenskra sveitarfélaga (SNS) hjá ríkissáttasemjara í dag skilaði ekki árangri. Ekki hefur verið boðað til nýs fundar.

„Það í rauninni þokaðist ekkert áfram. Við fundum ekki fyrir miklum samningsvilja að hálfu sambandsins,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, í samtali við mbl.is.

Hún segir að sáttasemjarar hafi metið stöðuna þannig að ekki hafi verið tilefni til þess að bóka annan fund. Verkföll hefjast því á mánudag.

Um er að ræða verkföll 977 starfs­manna á leik- og grunn­skól­um og frí­stunda­heim­il­um Kópa­vogs, Garðabæj­ar, Mos­fells­bæj­ar og Seltjarn­ar­ness.

Svo bætast fleiri við með hverri vikunni sem líður.

SNS verði að fara að horfast í augu við stöðuna

Í tilkynningu frá SNS skorar sambandið á forystu BSRB að fara með mál sitt í kjaradeilu félaganna fyrir dóm og óska eftir flýtimeðferð þess. SNS segir að ef dómsniðurstaða sýni fram á brot sveitafélaga þá verði laun starfsfólks leiðrétt.

„Þeim er í lófa lagt að leysa þessa deilu án þess að komi til kasta dómstóla. Við höfum tvær leiðir eins og staðan er núna. Annars vegar að gera nýjan kjarasamning þar sem þetta misrétti er leiðrétt eða þá að fara fyrir dómstóla. Afstaða okkar félagsfólks er mjög skýr, þau eru á leiðinni í aðgerðir til þess að knýja fram þá kröfu að misrétti verði leiðrétt. Ég held að sambandið [SNS] verði að fara að horfast í augu við þá stöðu,“ segir Sonja Ýr.

Ef verkfallsaðgerðir skila ekki breyttri viðleitni SNS, getur þú hugsað þér að fara með deilurnar fyrir dóm?

„Ég hef engar áhyggjur af því að svona umfangsmiklar aðgerðir skili ekki neinu. Ég held það sé tímaspursmál hvenær þau ætli að horfast í augu við það, sambandið,“ segir Sonja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert