Segja framsetningu á gögnum og forsendum villandi

Félag framhaldsskólakennara gerir alvarlegar athugasemdir við áform um að sameina fjölmarga skóla og hagræðingar í framhaldsskólakerfinu. Félagið hvetur ráðherra menntamála til að gera alvöru úr samráði við alla hagaðila.

Svo segir í yfirlýsingu sem fulltrúafundur félagsins gaf frá sér í gær.

Fram kemur í yfirlýsingunni að fulltrúar fundarins séu sammála um að svo virðist sem það samráðsferli sem kynnt hefur verið beri öll merki sýndarsamráðs um áform sem þegar hafi verið ákveðin. 

Þá sé latið í veðri vaka í kynningum stýrihóps að áformin um sameiningar hafi hlotið blessun skólamálanefndar félagsins – „svo er alls ekki.“

Villandi framsetning

Eins og sjá má í Greinargerð um húsnæðisþörf í framahaldsskólum 2023-2033 og kynningarefni stýrihópsins er framsetning á gögnum og forsendum fyrir sameiningum og hagræðingu innan framhaldsskólanna villandi því hún byggir á hæpnum gögnum og er til þess gerð að lita þróun nemendafjölda sterkari litum en forsendur eru fyrir.“

Í yfirlýsingunni segir að ekki sé horft nægilega langt fram eða aftur í tímann. Fyrirsjáanlegt sé að eftir 2033 fjölgi nemendum umtalsvert í framhaldsskólum.

Þá virðist ekki hafa verið litið til þess að stór hluti nýrra starfsnámsnemenda séu eldri en 22 ára. Auk þess sem hlutfall nemenda af erlendum uppruna til framtíðar hafi ekki verið tekið inn í myndina.

Þá hvetur fulltrúafundur félagsins ráðherra, mennta- og barnamálaráðuneytið og stýrihóp um eflingu framhaldsskóla, til þess að standa faglegar að málum, að því er segir í yfirlýsingunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert