Einmitt á svona tímum sem Hopp-hjól eru mikilvæg

Sæunn Ósk Unnsteinsdóttir framkvæmdastjóri Hopp Reykjavík.
Sæunn Ósk Unnsteinsdóttir framkvæmdastjóri Hopp Reykjavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stjórnvöld hafa lagst gegn því að hægt verði að nota hjól rafhlaupahjólaleiganna á lokuðum svæðum í kringum leiðtogafund Evrópuráðsins í þessari viku. Sæunn Ósk Unnsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Hopp Reykjavík, segir fyrirtækið að sjálfsögðu koma til móts við yfirvöld, þrátt fyrir að ákvörðunin sé svekkjandi. 

Víðtækar lokanir verða í miðbænum í tengslum við fundinn sem fer fram í Hörpu 16.-17. maí. Ekki verður heimilt að fara um lokuð svæði á bifreiðum og rafskútum, en gangandi vegfarendum og reiðhjólafólki er heimilt að ferðast um svæðið. 

Hér má sjá hvaða svæði verða lokuð á meðan fundinum …
Hér má sjá hvaða svæði verða lokuð á meðan fundinum stendur.

Hvetja notendur til að vera jákvæð

„Við gerum að sjálfsögðu allt sem í okkar valdi stendur til að aðstoða á meðan þessum fundi stendur og hlýðum því sem er sett á okkur,“ segir Sæunn, en Hopp-hjólin munu sjálfkrafa hægja á sér í kring um svæðið og ekki verður hægt að leggja þeim á svæðum þar sem lokað er fyrir umferð. 

„Við munum hvetja okkur notendur til að vera jákvæð, bara til þess að aðstoða, vegna þess að það verður gríðarlegt álag á viðbragðsaðilum.“ 

Hún segir að snjallforritið muni taka skýrt fram hvaða svæði megi ekki fara inn á og hvar verði ekki hægt að leggja. 

Rafskútur mikilvægur fararmáti

Sæunn segir það þó vissulega svekkjandi að ekki megi notast við rafskúturnar þegar megi nota reiðhjól á svæðinu, enda sennilegast margir sem myndu frekar kjósa að taka rafskútu til að komast leiða sinna hraðar. 

„Einmitt á svona tímum ættu Hopp hjól að vera lykillinn.“ segir Sæunn. 

Hún segir það hins vegar huggun harmi gegn að viðbragðsaðilar tengdir viðburðinum hafi beðið um að Hopp-hjól verði alltaf til reiðu fyrir utan stofnanir þeirra, þar sem mikið umstang sé í kringum fundinn og skipuleggjendur þurfi að komast hratt á milli staða. Það sýni í raun hve mikilvægur fararmáti rafskútur séu í Reykjavík. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert