20 mánaða fangelsi og 222 milljóna sekt

Harrow House, í eigu Valdimars Jónssonar, rak veitingastaðinn Primo, en …
Harrow House, í eigu Valdimars Jónssonar, rak veitingastaðinn Primo, en þar hafði veitingastaðurinn Caruso áður verið til húsa. Ljósmynd/Valdís Magnúsdóttir

Karlmaður á sextugsaldri, Valdimar Jónsson, var fyrir helgi dæmdur í 20 mánaða skilorðsbundið fangelsi og til að greiða 222 milljónir í sekt vegna skattalagabrota á árunum 2016-2019. Tengjast brotin einkahlutafélaginu Harrow house ehf., en það rak veitingastaðinn Primo í Þingholtsstræti 1. Áður hafði eigandi húsnæðisins og faðir Valdimars, Jón Ragnarsson, staðið í deilum við eiganda veitingarstaðarins Caruso sem endaði með að Caruso hrökklaðist úr húsnæðinu.

Harrow House var úrskurðað gjaldþrota árið 2020, en stuttu áður hafði skattrannsóknarstjóri hafið rannsókn á skattskilum Valdimars og félagsins. Hafði meðal annars komið fram við rannsóknina að offramtalin rekstrargjöld næmu 134 milljónum, úttektir Valdimars upp á 143 milljónir, vangoldin staðgreiðsla upp á um 8 milljónir og ógreiddur virðisaukaskattur upp á 20,8 milljónir.

Valdimar byggði vörn sína á því að hann væri saklaus af ásökunum ákæruvaldsins m.a. vegna þess að offramtalin rekstrargjöld væru það ekki heldur lögmæt sérleyfisgjöld. Þá hefði hann einnig að mestu þegar greitt áður vangreiddan virðisaukaskatt og afdregna staðgreiðslu. Greiðslurnar sem Valdimar taldi vera sérleyfisgjöld runnu til annars félags sem var skráð erlendis, en það félag var einnig í eigu Valdimars í gegnum þriðja félagið.

Í dómi héraðsdóms kemur fram að Valdimar hafi verið spurður út í hvað fælist í þjónustunni sem sérleyfisgjöldin byggðu á. Svaraði hann því að það væri þjónusta sem við kæmi veitingarekstri frá a til ö, og „allt sem því fylgir, margra ára þekking sem lögð er fram og þess háttar.“ Hafði hann sjálfur innt þessa þjónustu af hendi fyrir félagið sem skráð var erlendis fyrir sitt eigið félag, Harrow house, sem skráð var hér á landi.

Vísað er í dæmi sem Valdimar tók uppvaskara og kokk sem veittu þá þjónustu að vaska upp og elda mat. Væri það gert undir hans leiðsögn, en um verksamning væri að ræða sem ekki væri skráningarskyldur og varðaði hugmyndir. Hann ætti „konsept“ fyrir reksturinn og hafi ætlað að koma því af stað erlendis fyrir faraldurinn.

Sagði Valdimar að samningur um þetta væri til, en að hann hefði ekki haft tök á því að leita að honum. Sagði hann að samningurinn væri upp á prósentu af veltu, á bilinu 10-15%.

Í niðurstöðu dómsins kemur fram að sýnt hafi verið fram á að Valdimar hafi verið raunverulegur stjórnandi félagsins og stýrt fjármálum þess þrátt fyrir að hafa ekki verið skráður framkvæmdastjóri. Segir jafnframt að ljóst sé að talsverð óreiða hafi verið í fjármálum fyrirtækisins, framburður Valdimars um margt verið óljós og skýringar hans illa samræmst þeim gögnum sem fram hafa komið og hann ekki lagt fram þau gögn sem hefðu getað stutt röksemdir hans. Þá liggi engin gögn fyrir sem staðfesti umrætt sérleyfi og er það því mat dómsins að framburður Valdimars um slíkan samning sé ótrúverðugur og því hafnað.

Þá er hann talinn hafa staðið skil á efnislega röngum skattframtölum fyrir félagið með því að offramtelja rekstrargjöld. „Mátti ákærða vera ljóst að engar forsendur voru til að telja greiðslurnar fram sem rekstrargjöld fyrir félagið og verður að telja að hann hafi sýnt af sér a.m.k. stórkostlegt hirðuleysi með háttseminni,“ segir í dóminum.

Varðandi skattskil staðgreiðslu og virðisaukaskatts taldi Valdimar að greiðslur eftir að málið kom til ættu að leiða til sýknu. Tekur dómurinn fram að þótt greiðslur hafi borist hafi fyrst átt að greiða kostnað, síðan höfuðstól, álag og loks vexti. Verði ekki fallist á að greiðslurnar hafi því allar verið upp í höfuðstólinn og er vörnum hans hafnað varðandi þetta. Þá leiði skil síðar meir ekki til sýknu, en kunni að hafa áhrif á upphæð fésektar.

Er niðurstaða dómsins að Valdimar hafi komið að skattalagabrotum sem varði verulegar fjárhæðir og að brot hans hafi staðið yfir í þrjú ár. Er fésekt hans vegna ógreiddra skatta að hluta til lækkuð vegna inngreiðslu, en niðurstaðan er engu að síður sú að hann þurfi að greiða 222 milljónir í sekt. Þá er hann dæmdur í 20 mánaða skilorðsbundið fangelsi, auk þess að þurfa að greiða málsvarnarlaun lögmanns síns upp á 3,1 milljón.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert