Ísland færir Úkraínu neyðarsjúkrahús

Katrín Jakobsdóttir og Volodimír Selenskí í mars s.l. í heimsókn …
Katrín Jakobsdóttir og Volodimír Selenskí í mars s.l. í heimsókn forsætisráðherrans til Úkraínu. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Formenn og fulltrúar allra stjórnmálaflokka i á Alþingi leggja í dag fram tillögu til þingsályktunar um að fela utanríkisráðherra að festa kaup á færanlegu neyðarsjúkrahúsi til notkunar fyrir særða hermenn og færa úkraínsku þjóðinni vegna innrásar Rússa í Úkraínu. Áætlað er að sjúkrahúsið muni kosta 1.200 milljónir íslenskar krónur. 

Í fréttatilkynningu frá Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra, kemur fram að Úkraínsk stjórnvöld hafi óskað eftir stuðningi frá íslenskum stjórnvöldum og komið því á framfæri að brýn þörf sé á færanlegum neyðarsjúkrahúsum.

Fyrir hafa Eistland, Þýskaland, Noregur og Holland sent þeim þrjú slík sjúkrahús en þau skipta sköpum til að sinna særðum hermönnum og almenning þar sem hægt starfsrækja þau sjálfstætt og án tengingar við fyrirliggjandi innviði.

Þverpólitísk samstaða

Samkvæmt tilkynningu forsætisráðherra hefur ríkt þverpólitísk samstaða á Alþingi um stuðning við Úkraínu frá því að innrás Rússa hófst og að formenn flokkanna leggi áherslu á að undirstrika þá samstöðu með gjöfinni. 

Forseti Úkraínu, Volodimír Selenskí hefur ítrekað þakklæti fyrir yfirgnæfandi stuðning íslensku þjóðarinnar við málstað Úkraínu á fundum sínum með forsætisráðherra Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert