Niðurfelling í Blönduósmáli staðfest

Eftir árásina í fyrra streymdi fjöldi íbúa bæjarins í kirkjuna …
Eftir árásina í fyrra streymdi fjöldi íbúa bæjarins í kirkjuna þar sem fáni hafði verið dreginn í hálfa stöng, en það átti einnig við fjölmarga aðra staði í bænum þennan dag. mbl.is/Hákon

Ákvörðun héraðssaksóknara um að fella niður Blönduósmálið svokallaða á grundvelli neyðarvarnar hefur verið staðfest af embætti ríkissaksóknara. Þetta kemur fram í svari Huldu Maríu Stefánsdóttur, saksóknara hjá embættinu, við fyrirspurn mbl.is. Aðstandendur árásarmanns, sem réðst inn í hús á Blönduósi og varð konu að bana og særði eiginmann hennar alvarlega, kærðu ákvörðunina eftir að hún lá fyrir í síðasta mánuði. Rúv greindi fyrst frá niðurstöðunni.

Í ág­úst í fyrra var skotárás á heim­ili á Blönduósi þar sem tveir lét­ust og einn særðist al­var­lega. Maður hafði komið vopnaður af­sagaðri hagla­byssu inn á heim­ilið, en úti­dyr húss­ins voru ólæstar. Var hann með sjö hagla­skot meðferðis.

Hélt hús­ráðandi síðar á eft­ir mann­in­um út úr hús­inu þar sem kom til orðaskipta sem enduðu á þann veg að hús­ráðandi var skot­inn í kvið og særðist al­var­lega. Þá fór árás­armaður­inn aft­ur inn í húsið og skaut eig­in­konu hús­ráðanda með þeim af­leiðing­um að hún lést. 

Í tilkynningu frá lögreglu fyrr á árinu sagði: „Son­ur hús­ráðanda kom til aðstoðar og náði byss­unni af árás­ar­mann­in­um. Kom til mik­illa átaka á milli son­ar­ins og árás­ar­manns­ins en í ljós kom að árás­armaður­inn var með veiðihníf í vasa. Átök­in enduðu á þann veg að árás­armaður­inn lét lífið. Rétt­ar­krufn­ing hef­ur leitt í ljós að dán­ar­or­sök var köfn­un vegna þrýst­ings á háls og brjóst.

Staðreynt hef­ur verið að son­ur­inn hringdi fyrsta sím­tal til neyðarlínu og óskaði eft­ir aðstoð lög­reglu vegna bys­su­manns inni í hús­inu kl. 05.27. Lög­regla á bakvakt í um­dæm­inu var ræst út sjö og hálfri mín­útu síðar. Lög­regla var kom­in á vett­vang kl. 05.53 eða 26 mín­út­um frá fyrstu aðstoðarbeiðni.”

mbl.is