Hrósar almenningi í hástert

Víðir Reynisson, yf­ir­lög­regluþjónn í almannavarnadeild rík­is­lög­reglu­stjóra, segir stærsta löggæsluverkefni lögreglunnar …
Víðir Reynisson, yf­ir­lög­regluþjónn í almannavarnadeild rík­is­lög­reglu­stjóra, segir stærsta löggæsluverkefni lögreglunnar á Íslandi hafa gengið mjög vel og að lögreglan gangi stolt frá verkefninu. Samsett mynd

Löggæsluverkefnið í tengslum við leiðtogafund Evrópuráðsins er það stærsta sem lögreglan á Íslandi hefur tekist á hendur að sögn Víðis Reynissonar, yf­ir­lög­regluþjóns í almannavarnadeild rík­is­lög­reglu­stjóra.

Víðir segir verkefnið hafa gengið mjög vel og að lögreglan gangi stolt frá verkefninu. Því sé þó ekki lokið en nokkrar sendinefndir séu enn á landinu og að enn standi fundir yfir þó sjálfum leiðtogafundinum sé lokið. „Þetta er verkefni sem nær fram yfir hádegi á morgun hjá okkur.“

54 sendinefndir á innan við klukkustund

Hann segir að byrjað hafi verið að aflétta öllum lokunum í miðborginni síðdegis, aðeins á undan áætlun, og kveðst ánægður með það. Þá segir hann að skipulagið og undirbúningurinn hafi verið með þeim hætti að hægt hafi verið að takast á við allar áskoranir hratt og örugglega.

„Mesta álagið var í gær þegar við bæði vorum að taka á móti erlendu sendinefndunum og þær allar að koma í Hörpu á sama klukkutímanum. Ég held að þetta hafi verið 54 sendinefndir sem komu í Hörpu á innan við klukkutíma. Sumar komu beint af flugvelli og aðrar af hóteli. Það kallaði á mjög mikla samhæfingu og gekk með samstilltu átaki mjög margra,“ segir Víðir.

„Til fyrirmyndar og samstarfsfúsir“

Víðir hrósar almenningi í hástert. Hann segir fólk hafa verið alveg til fyrirmyndar og að öll samskipti lögreglunnar við almenning í tengslum við verkefnið hafi verið mjög góð. Segir hann ökumenn og aðra vegfarendur hafa verið mjög hjálplega og gefið lögreglu það pláss sem hún þurfti til að vinna með þetta.

„Þetta var gríðarleg áskorun fyrir þá sem sinntu umferðarfylgdum og lokununum því lögreglan á Íslandi er ekki fjölmenn og þeir sem sinna fylgdum, sérstaklega milli Reykjavíkur og Keflavíkur, eru ekki mjög margir. Bæði þeir sem voru á bílum og mótorhjólum þurftu að fara margar ferðir fram og til baka til að sækja og fara með fólk. Þannig voru áskoranirnar miklar en við heyrum ekki annað en að vegfarendur hafi verið algjörlega til fyrirmyndar og mjög samstarfsfúsir.“

Allt gengið upp samkvæmt plani

Íslenskir ökumenn mönnuðu alla bíla í öllum fylgdum að sögn Víðis. Ökumennirnir komu frá lögreglu, tollgæslu og frá öðrum aðilum og þurfti að þjálfa þá upp í réttum atburðum. Yfir 10 þúsund vinnustundir hafa farið í þjálfun lögreglumanna vegna löggæsluverkefnisins í kringum fundinn. „Það er búið að vera langt undirbúningsferli og mikil vinna sem er að skila sér í þeirri niðurstöðu að allt virðist hafa gengið upp samkvæmt okkar plani.“

Lögreglan á Íslandi er með samninga við norðurlöndin um gagnkvæma aðstoð og sá samningur var virkjaður. „Eins og margir sáu bæði í fjölmiðlum og þeir sem voru staddir í miðbænum þá voru lögreglumenn frá öðrum löndum með okkar fólki. Síðan vorum við með tæknilega aðstoð erlendis frá í tengslum við dróna og annað slíkt,“ segir Víðir. Hann segir það hafa verið mjög gott og gengið mjög vel. Þá segir hann erlenda lögreglumenn hafa verið í samskiptum við almenning og það gengið vel.

„Öll okkar samskipti voru á jákvæðum nótum. Okkar tilfinning er að allir þeir sem komu að þessu verkefni sem og íbúar og gestir á þeim svæðum þar sem við vorum að vinna, hafi sýnt okkar vinnu mikinn skilning og haft mikinn áhuga á að allt færi vel fram og lögðu sitt af mörkum í því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert