Maðurinn sem lést var um sjötugt

Arnarstapi.
Arnarstapi.

Maðurinn sem féll fram af björgum við Arnarstapa í gær og lést var um sjötugt. Tilkynning um slysið barst lögreglunni frá ferðamannahópi sem var á staðnum. Jónas Ottósson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á Vesturlandi, segir aðspurður að ekki hafi verið um erlendan ferðamann að ræða.

Slysið varð í vík á bak við smábátahöfnina á Arnarstapa og var aðkoman var mjög erfið, að sögn Jónasar.

„Við þurfum að fara yfir gögnin sem við vorum að safna. Við teljum okkur vita hvað gerðist en það þarf að staðfesta það,“ segir hann og bætir við að vettvangsrannsókn sé lokið.

Tók tíma að útvega bát

Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar, segir að aðstæður til björgunarstarfa hafi verið krefjandi. Björgunarsveitarfólk frá Lífsbjörg í Snæfellsbæ var að undirbúa að setja upp línur og síga niður klettana ofan í fjöruna þegar í ljós kom að mögulegt var að komast að manninum af sjó.

Enginn björgunarbátur var á staðnum og nokkurn tíma hafði tekið að fá bát úr smábátahöfninni á Arnarstapa vegna þess að strandveiðimenn voru búnir að búa flotann sinn undir slæmt veður fram undan, að sögn Jóns Þórs.

Læknir um borð í bátnum staðfesti síðan að um banaslys hefði verið að ræða. Björgunarbátur kom síðar frá Snæfellsbæ með lögreglu- og sjúkraflutningamenn um borð og sótti viðkomandi.

Fengu áfallahjálp

Björgunarstarfinu lauk um hálftvöleytið í gær. Björgunarsveitarfólkið frá Lífsbjörg fékk í kjölfarið áfallahjálp eins og venjan er þegar svona atburðir gerast.

Spurður hvort kallað hefði verið á þyrlu Landhelgisgæslunnar vegna slyssins segir Jón Þór að hún hafi verið í öðru útkalli á sama tíma. Verið var að gera ráðstafanir til að koma sjúklingi úr þyrlunni um borð í sjúkrabíl á meðan hún veitti aðstoð við Arnarstapa en áður en til þess kom var staðfest að um banaslys væri að ræða. Fór hún því ekki á vettvang.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert