Auglýsa eftir starfskrafti sem er sjaldan veikur

Eina hæfniskrafan í atvinnuauglýsingu fyrir starfsmann í plastverksmiðju á Akureyri …
Eina hæfniskrafan í atvinnuauglýsingu fyrir starfsmann í plastverksmiðju á Akureyri er „hæfileiki að vera sjaldan veikur“. Samsett mynd

Erfiðlega gengur að fá fólk til að sækja um vinnu hjá plastverksmiðjunni Polynorth á Akureyri. Eigandi fyrirtækisins auglýsti því laust starf á Alfreð.is þar sem „hæfileiki að vera sjaldan veikur er kostur“.

„Það er nóg til af fólki sem er meira og minna veikt alla daga. Þannig það er ekki beðið um mikið meira. Ég skal svo bara kenna rest,“ segir Hjörleifur Árnason, framkvæmdastjóri og annar eigenda Polynorth, í samtali við mbl.is.

„Það eru engar kröfur. Þú þarft ekki að vera með meirapróf, þú þarft ekki að vera með bílpróf, þú þarft ekki að tala íslensku,“ bætir hann við.

Atvinnulausir í Eyjafirði 450 talsins

„Ég er búinn að vera frá byrjun mars að djöflast á bakinu á Vinnumálastofnun á Akureyri að útvega mér einhvern í vinnu og það er enginn búinn að sækja um. Það eru 450 manns atvinnulausir á Eyjafjarðarsvæðinu og það er enginn búinn að sækja um,“ segir Hjörleifur.

„Auðvitað má enginn tala um þetta því þá styggir maður góða fólkið, en þetta er bara staðan bláköld.“

Hjörleifur segir að illa hafi gengið að fá Vinnumálastofnun til að senda sér ferilskrár til að geta haft samband við mögulegt framtíðarstarfsfólk.

„Ég er að selja einangrunarplast og húskubba og ég fæ alla iðnaðarmannaflóruna inn til mín daglega. Verktakar, múrarar, píparar og smiðir og allt, eru allir að ströggla við það sama, að útvega starfsfólk.

Á meðan eru 450 manns að þiggja bætur og það fólk heldur að peningurinn verði bara til í einhverjum sjóð. Á sama tíma kvarta atvinnuleysingjarnir yfir því að Stöð 2 sé orðið of dýrt,“ segir Hjörleifur.

Meinilla við að nota Alfreð

Hann segist hafa neyðst til að nýta sér atvinnuauglýsingaforritið Alfreð. Honum hafi þó verið meinilla við það.

„Ég held það séu 70 manns búnir að sækja um og 50 af þeim eru búsettir erlendis. Þeir eru ekki með húsnæði og flestir ekki með kennitölu einu sinni.

Þetta virkar þannig að fyrir hvern einasta sem klikkar á auglýsinguna þína þá borgar þú sem atvinnurekandi. Þannig ég þoli ekki þetta forrit sem atvinnurekandi en hins vegar er þetta líklega að skila mér starfsmanni, þannig það verður bara að hafa það. Ekki eru atvinnuleysingjarnir tilbúnir að vinna alla vega,“ segir Hjörleifur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert