Segist ekki vera í vandræðum með Gæsluna

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra segist aðspurður ekki vera í vandræðum með Landhelgisgæsluna.

Rætt er við Jón í þáttaröð Dagmála um öryggis- og varnarmál, en viðtali við Jón var sýnt í vikunni.

Í þættinum er meðal annars vikið að starfsemi Landelgisgæslunnar og þeirri umræðu sem upp kom í vetur þegar ráðherrann lagði það til að selja flugvél Gæslunnar, TF-SIF, úr landi. Í framhaldi af umræðu um rekstur vélarinnar og rekstrarvanda Gæslunnar er Jón spurður að því hvort hann telji sig vera í vandræðum með stofnunina.

„Ég er ekki í meiri vandræðum með Gæsluna en aðrar stofnanir,“ svarar Jón.

Hann nefnir þó í framhaldinu að það sé mikil tilhneiging í kerfinu að verja sína starfsemi. Í því samhengi vísar hann til þeirra hugmynda sem komið hafa fram um sameiningar sýslumannsembætta og dómstóla – og nefnir að hluti sýslumanna og dómara hafi mótmælt þeim áformum.

„Vissulega missa sumir þeirra í framtíðinni spón úr sínum aski. Það þarf ekki dómstjóra yfir sjálfum sér, það þarf ekki dómara á vakt allan sólarhringinn út um allt land,“ segir Jón í viðtalinu.

Hann bætir við að nauðsynlegt sé að horfa á heildarmyndina og réttarkerfið í heild sinni, allt frá því að rannsókn mála hefst til fullnustu refsinga. Koma þurfi í veg fyrir flöskuhálsa í því ferli.

„Það vantar stundum meiri kjark í pólitíkina til að stíga svona skref,“ segir Jón.

Í þættinum er meðal annars fjallað um viðbragsgetu og búnað lögreglunnar, rannsóknum á skipulagðri glæpastarfsemi, samskipti við erlendar löggæslustofnanir, starfsemi Gæslunnar og annað sem snýr að borgaralegu öryggi.

Hægt er að horfa á bút úr viðtalinu hér fyrir ofan og áskrifendur geta nálgast viðtalið í heild sinni á mbl.is.

Flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SIF.
Flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SIF. Ljósmynd/Landhelgisgæslan
mbl.is