Var félagslegt húsnæði betra áður?

Hamraneshverfi í Hafnarfiriði, verkamannabústaðir í Vesturbæ Reykjavíkur og Bakkarnir í …
Hamraneshverfi í Hafnarfiriði, verkamannabústaðir í Vesturbæ Reykjavíkur og Bakkarnir í Breiðholti. Samsett mynd

Hildur Gunnarsdóttir arkitekt kom fram með áhugaverða gagnrýni á núverandi ástand húsnæðismarkaðarins á fundi Viðreisnar um málaflokkinn í dag. Eitt af því sem kom fram í máli hennar er að félagslegt húsnæði sem byggt er í dag er í raun minna og án sömu viðbótargæða en það sem byggt var fyrir 40-50 árum.

Ræður þar mestu um núverandi reglugerð frá 2016 sem beintengir byggingarkostnað og leigu við ráðstöfunartekjur láglaunafólks. Fyrir vikið eru félagslegar íbúðir smærri en til dæmis þær sem byggðar voru í Bökkunum og Fellunum í Reykjavík. Félagslegt húsnæði skeri sig nú úr í hverfum, garðrými þeirra sé minna og bílastæði eru höfð á yfirborði, en ekki í bílakjöllurum.

Sökin ekki hjá fasteignafélögunum

Hildur segist fagna tilkomu fasteignafélaga eins og Bjargs og segir ekki við slík félög að sakast heldur miklu frekar hvernig reglugerðin er samsett. Áður fyrr hafi til dæmis enginn munur verið á reglugerð um byggingu húsnæðis, hvort sem það var félagslegt eða annað. Á árunum 1998-2002 hverfi um 11 þúsund íbúðir úr félagslega kerfinu þegar það var lagt niður í þáverandi mynd og árið 2016 sé raunar hafist handa að nýju á núllpunkti.

Hildur hefur líka áhyggjur af gæðum þess húsnæðis sem byggt er í dag, og er þá ekki bara að tala um félagslegt húsnæði. Þétting byggðar án hámarkstakmarkana leiðir til þess að lítið sé hugsað út í birtugæði í íbúðum, en ytra umhverfi geti haft mikil áhrif á hversu mikil birta ratar inn í íbúðir. Ákvæði um þetta sé að finna í flestum evrópskum byggingareglugerðum en mjög takmarkað í þeirri íslensku. Þetta skjóti skökku við þar sem birta er mjög takmörkuð gæði á Íslandi. Ekki hefur því farið fram nein rannsókn á því hversu mikla þéttingu borgin þoli.

Margt að læra frá Danmörku

Rannsókn hennar á almenna danska íbúðakerfinu hefur sýnt að það stefni að félagslegri dreifingu á milli hverfa, það geti t.d. gert hjúkrunarfræðingi eða lögreglumanni kleift að búa í dýrari hverfum Kaupmannahafnar.

Danir eru stoltir af almenna íbúðakerfinu. Í því eiga hjúkrunarfræðingur eða lögreglumaður tækifæri til að búa í íbúð á dýrum svæðum í Kaupmannahöfn. Þeir leggi áherslu á góðan arkitektúr í félagslega kerfinu og gera ekki minni kröfur en til annarra íbúðabygginga. Eins hafi Danir gert ráðstafanir í kerfinu þannig að ekki myndist gettó láglaunafólks eða innflytjenda og að samsetning þeirra sé sem fjölbreyttust.

Gylfi Magnússon flutti erindi á fundi Viðreisnar um húsnæðismarkaðinn.
Gylfi Magnússon flutti erindi á fundi Viðreisnar um húsnæðismarkaðinn. Eggert Jóhannesson
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Hanna Katrín Friðriksson á afmælisfundi Viðreisnar …
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Hanna Katrín Friðriksson á afmælisfundi Viðreisnar um húsnæðismarkaðinn. Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert