Eldra fólk leggur meira til samfélagsins en aðrir

Guðmundur Ingi Guðbrandsson að kynna aðgerðaráætlunina Gott að eldast, í …
Guðmundur Ingi Guðbrandsson að kynna aðgerðaráætlunina Gott að eldast, í Ráðherrabústaðnum í dag. mbl.is/Arnþór

Fólk yfir 67 ára aldri leggur hlutfallslega meira til samfélagsins en aðrir hópar samkvæmt ábatagreiningu sem KPMG vann fyrir stjórnvöld vegna heildarendurskoðunar á þjónustu við eldra fólk. Niðurstöður greiningarnar og aðgerðaáætlun til bættrar þjónustu fyrir aldraða voru kynntar á blaðamannafundi í Ráðherrabústaðnum í dag.

Aldurssamsetning þjóðarinnar breytist hratt og samkvæmt spám má gera ráð fyrir hlutfall eldra fólks (67 ára eða eldri) verði um 20% af íbúafjölda landsins árið 2050.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, og Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra skipuðu verkefnastjórn sumarið 2022 til þess að vinna að aðgerðaáætlun til fjögurra ára. Aðgerðaráætlunin kallast Gott að eldast, og felst í því að bæta þjónustu við eldra fólk.

Auk þeirra sem fluttu erindi voru Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, Helga Garðarsdóttir og Hallgrímur Arnarson frá KPMG og Helgi Pétursson, formaður Landssambands eldri borgara (LEB).

Kostnaðarmat sýnir að aðgerðirnar kosti samtals um 1,94 milljarð króna.

Willum Þór heilbrigðisráðaherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra á fundinum í …
Willum Þór heilbrigðisráðaherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra á fundinum í dag. mbl.is/Arnþór

Eldra fólk virði en ekki byrði

Heilbrigðisráðherra sagði á fundinum að greining KPMG kollvarpi þeirri mýtu um að eldra fólk væri fjárhagsleg byrði á samfélaginu. Í niðurstöðunum kemur fram að framlag einstaklinga sem eru 67 ára og eldri í formi útsvars- og skattgreiðslna fari hækkandi og að eldra fólk leggi meira til samfélagsins en yngra fólk skapi meiri útgjöld innan sveitarfélaga.

Svokallaður ábatastuðull eldra fólks er hærri en yngra fólks. Samkvæmt greiningunni hefur eldra fólk í dag ábatastuðulinn 1,3 á meðan yngra fólk er með stuðulinn 0,7. Ef ábatastuðull er yfir 1,0 gefur viðkomandi hópur meira til sveitarfélags í formi tekna en hann kostar.

Miðað við spár og þróun síðustu 10 ára er gert ráð fyrir að útsvarsgreiðslur eldra fólks verði tæp 30% af heildarútsvarstekjum sveitarfélaga árið 2050, á sama tíma og búist er við því að um einn fimmti þjóðarinnar verði 67 ára eða eldri.

Frá blaðamannafundinum í dag.
Frá blaðamannafundinum í dag. mbl.is/Arnþór

Öll þjónustan úr sömu átt

Í áætluninni felst samþætting á félags- og heilbrigðisþjónustu til eldri borgara.

„Við viljum bara efla öll þessi úrræði og þétta þjónustukeðjuna þannig að einstaklingur finni ekki fyrir því hverjir eru að veita þjónustuna að hverju sinni. Við höfum oft haft tilhneigingu til að vera með þetta hvert út af fyrir sig. Nú erum við að vinna þetta saman,“ útskýrir Willum Þór í samtali við mbl.is „Nú erum við að fara í gang með tilraunaverkefni út um öll sveitarfélög og inn á stofnununum þannig að hver og einn einstaklingur á að fá þjónustu við hæfi.“

Willum Þór Þórsson segir að greining KPMG kollvarpi þeirri mýtu …
Willum Þór Þórsson segir að greining KPMG kollvarpi þeirri mýtu um að eldra fólk sé fjárhagsleg byrði á samfélaginu. mbl.is/Arnþór

„Tilraunaverkefnin eru svona að fara af stað. Ég nefndi stofnanir eins og heilsugæsluna. Það er mjög mikilvægt að við eflum heilsueflingu þar í gegnum allar heilbrigðisstofnanir út um allt land.“

Gagnvirkt mælaborð

Á fundinum opnaði Helgi Pétursson formlega nýtt gagnvirkt mælaborð á vefnum með tölulegum upplýsingum og útreikningum. Er mælaborðið hugsað til þess að bæta öflun og miðlun á upplýsingum um til dæmis útsvarsgreiðslur eldra fólks, launaþróun tekjur, svo fátt sé nefnt.

„Við opnuðum mælaborð hér í lokin þannig við getum fylgst með hvernig fram vindur. Það er augljóst hver hröðunin er í öldruninni,“ segir Willum Þór. „Sem betur fer búum við lengur og betur og þetta er til þess að við styðjum hvort annað við það að lifa heilbrigðara lífi.“

í tilkynningu frá Stjórnarráðinu er haft eftir Helga að „Þetta sýnir skýrt hvað þessi sístækkandi hluti þjóðarinnar leggur mikið til og ekki má gleyma hlut hans í uppbyggingu innviða fram til þessa. Það er mikilvægt verkefni að halda þessum hópi virkum. Stór þáttur í því er að tryggja fólki viðunandi kjör til að vega upp á móti verulegum samdrætti tekna á efri árum.“

Helgi Pétursson, formaður LEB, opnaði stafræna mælaborðið undir lok fundarins.
Helgi Pétursson, formaður LEB, opnaði stafræna mælaborðið undir lok fundarins. mbl.is/Agnar
Helga Garðarsdóttir og Hallgrímur Arnarson frá KPMG.
Helga Garðarsdóttir og Hallgrímur Arnarson frá KPMG. mbl.is/Arnþór
Heiða Björg Hilmisdóttir formaður Samtaka íslenskra sveitarfélaga.
Heiða Björg Hilmisdóttir formaður Samtaka íslenskra sveitarfélaga. mbl.is/Arnþór
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert