Forseti hnýtir í ráðherra

Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra og Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitastjórnar Múlaþings.
Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra og Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitastjórnar Múlaþings.

Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitastjórnar í Múlaþingi telur sérstakt að Jón Gunnarsson stígi fram og lýsi því yfir að hann telji heppilegra að Fjarðaleið verði sett í forgang umfram það að gera jarðgöng til Seyðisfjarðar um Fjarðarheiði.

Segir hún ráðherra gera það áður en rýnihópur almannavarna hafi kynnt niðurstöðu sína í úttekt um lokanir og rýmingar í kjölfar snjóflóðanna í lok mars.

„Ég set spurningamerki við þessa niðurstöðu ráðherra þegar rýni hefur ekki átt sér stað. Upplýsingar sem þar koma fram eru það mikilvægasta sem hægt er að fara eftir,“ segir Jónína.

Snjóflóð féllu í Neskaupstað í mars.
Snjóflóð féllu í Neskaupstað í mars. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fjarðarheiði sleppt 

Þá bendir Jónína á það að starfshópur á vegum Jóns Gunnarssonar þegar hann var samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hafi gert úttekt á svæðinu og skilað af sér skýrslu árið 2019. Niðurstaða skýrslunnar var á þann veg að heppilegast væri að hringtengja Austfirði og að byrja á ætti á Fjarðarheiðargöngum.

Tillaga Jóns núna lítur hins vegar að því að sleppa göngum um Fjarðarheiði frá Egilsstöðum en tengja Seyðisfjörð um Mjóafjörð þess í stað.

Ekkert sem réttlæti aðra leið 

Þannig verði lögð svokölluð T göng sem leiða frá Seyðisfirði að Neskaupstað og frá Héraði að vestanverðu. „Ef að þetta er niðurstaða frá almannavörnum núna þá þarf að skoða það en ég hef ekkert séð sem réttlætir það að fara aðra leið en að gera göng um Fjarðarheiði líkt og gert er ráð fyrir í samgönguáætlun,“ segir Jónína.

„Það þarf að hringtengja líkt og talað hefur verið um til að ná hámarks ábata fyrir svæðið hérna á Austurlandi. Auðvitað höfðum við skilning á því að skiptar skoðanir geti verið á málum en þetta er gríðarlegt byggðarþróunarmál fyrir Austurland. En þetta er líka alveg svakalegt öryggismál fyrir Seyðfirðinga. Fjarðarheiðin er svo oft lokuð. Þegar aurskriðurnar féllu mátti minnstu muna að heiðin væri lokuð og þá hefðu íbúar fest þar inni. Ef að við tryggjum ekki þessa hringtengingu á Austurlandi þá erum við ekki að sjá vöxtinn eins og við myndum vilja sjá hann,“ segir Jónína.

Oft er illfært um Fjarðarheiði.
Oft er illfært um Fjarðarheiði. Ljósmynd/Aðsend

Seyðfirðingar upplifi mótlæti 

Þá segir Jónína fólk á Seyðisfirði upplifa málin sem svo að unnið sé gegn þeirra hagsmunum. „Það var mikið áfall þegar til rýmingar kom í vetur á Seyðisfirði og allt var lokað. Þetta minnti fólk á aurskriðurnar. Fólk vill búa á Seyðisfirði og vill að á það sé hlustað,“ segir Jónína.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert