Hvetja Kragann til sam­ræmdar mót­töku flótta­fólks

Kópavogur er hvattur til þess að taka þátt.
Kópavogur er hvattur til þess að taka þátt. mbl.is/Sigtryggur Sigtryggsson

Kjördæmisráð Vinstri grænna í suðvesturkjördæmi skorar á þau sveitarfélög í Kraganum sem ekki gera það nú þegar, að taka þátt í samræmdri móttöku flóttafólks. Móttakan er sögð mikilvægur liður í því að aðstoða fólk sem hefur hlotið alþjóðlega vernd á Íslandi að ná hér fótfestu.

Þá er þátttöku Hafnarfjarðar, Garðabæjar og Mosfellsbæjar í samræmdri móttöku flóttafólks fagnað. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vinstri grænum um ályktun af aðalfundi kjördæmisráðsins.

Þar er lögð áhersla á að stórum sveitarfélögum eins og Seltjarnarnesi og Kópavogi beri að axla ábyrgð og taka vel á móti fólki með því að taka þátt í fyrrnefndri móttöku. Samningum félags- og vinnumarkaðsráðherra í þessum málaflokki við sveitarfélög landsins er einnig fagnað en Kraginn er kjördæmi Guðmundar Inga ráðherra.

„Fjöldi þátttökusveitarfélaga er nú tólf. Samræmd móttaka flóttafólks er mikilvægur liður í því að aðstoða fólk sem fengið hefur alþjóðlega vernd á Íslandi að ná fótfestu hér á landi, og felur í sér aukinn fjárhagslegan stuðning ríkisins við sveitarfélög sem þátt taka. Með þátttöku fleiri sveitarfélaga í samræmdri móttöku flóttafólks er hægt að taka enn betur á móti flóttafólki og aðstoða það við að verða virkir þátttakendur í íslensku samfélagi,“ segir að lokum.

mbl.is