Kalla eftir samtali við borgina vegna nýrrar byggðar

Frá íbúafundi í öskju í gær.
Frá íbúafundi í öskju í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta snýst um að borgin er ekki að eiga samskipti við íbúa um framkvæmdirnar,“ segir Garðar Árni Garðarsson íbúi í Skerjafirði sem situr í stjórn Prýðisfélagsins Skjaldar. Íbúar óttast að byggðin ógni flug- og umferðaröryggi ásamt lífríki í fjörunni. Garðar gagnrýnir jafnframt borgina fyrir að líta framhjá sérfræðingum vegna málsins. 

Prýðisfélagið Skjöldur stóð fyrri íbúafundi í Öskju í gær þar sem saman komu hátt í tvö hundruð manns vegna áforma borgarinnar um nýja íbúa­byggð sem reisa á aust­ur af Skerjaf­irði. Fund­ur­inn bar yf­ir­skrift­ina Skjald­borg um Skerja­fjörð og var boðaður vegna fram­kvæmda sam­kvæmt nýju deili­skipu­lagi sem sex­fald­ar íbúa­fjölda Skerja­fjarðar. Íbúar voru hvatt­ir til fund­ar­ins með það að mark­miði að standa vörð um nærum­hverfi sitt, um­ferðarör­yggi, lýðheilsu, nátt­úru­vernd og flu­gör­yggi. 

Mætingin á fundinn var til marks um það hve íbúum er annt um þetta mál að sögn Garðars. Efni fundarins var ekki um það hvort flugvöllurinn ætti að vera þar sem hann er heldur um það að borgin er ekki að eiga í samskiptum við íbúa um framkvæmdirnar. Hann segir það óforskammað og að um ólýðræðisleg vinnubrögð sé að ræða. 

Líta fram hjá áliti sérfræðinga

Garðar segir lögfræðing á vegum borgarinnar horfa fram hjá áliti sérfræðinga í skýrslu um áhrif byggðar og framkvæmda á flug- og rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar, í sér áliti sem hún skilaði frá sér samhliða skýrslunni.

Á fundinum í gær tók jafnframt einn fundargesta til máls þar sem hann sagði „furðulegt hvað meirihluti borgaryfirvalda talar niður til sérfræðinga. Mislærðir borgarfulltrúar sem eru dimmumannlegir í orðum og gera lítið úr vinnubrögðum sérfræðinga“. Eftir þessi orð uppskar hann mikið lófaklapp. 

Sigurður Ingi Jóhannesson innviðaráðherra var einnig gagnrýndur á fundinum, en fyrir ári síðan sagði hann að ekki yrði byggt í Skerjafirði á meðan ekki væri búið að finna annan jafngóðan eða betri kost undir flugvöllinn. Nú upplifa íbúar hins vegar að annað sé uppi á teningnum enda komið annað hljóð í Sigurð að sögn fundarmanna. Nú sé ekki þörf á að hætta við byggingarhugmyndir vegna mögulegra mótvægisaðgerða. 

Garðar óttast því að framkvæmdirnar séu til þess fallnar að bola flugvellinum í burtu, en að hans sögn hefur íbúum ítrekað verið sagt að ekki ætti að hefja framkvæmdir við nýja byggð fyrr en búið væri að finna varanlegan stað fyrir flugvöllinn. Hann segir borgina neita að hlusta á sérfræðinga og jafnframt gera lítið úr þeirra áliti. 

Ógnar bæði flug- og umferðaröryggi

Byggðin ógnar öryggi flugvallarins og horfa verður til þeirra áhrifa sem hún kemur til með að hafa á bæði umferðar- og flugvallaröryggi að mati Garðars. Hann segir að líta verði til samverkandi þátta, nú þegar eigi að fara að keyra framkvæmdina í gegn. Engar áætlanir virðast hafa verið gerðar um bílaumferð og ekkert samráð verið haft við íbúa hverfisins. Íbúar vilji fá skýr svör um það hvernig framkvæmdum verði háttað hvað þetta varðar og eins hvernig fráveitukerfið er hugsað. 

Orri Eiríksson, flugmaður og verkfræðingur hélt erindi á fundinum þar sem hann benti meðal annars á að án flugvallarins væru líffæraflutningar frá Landspítalanum eins og þeir eru í dag ekki mögulegir. En í líffæraflutningum skiptir hver mínúta máli. Hann nefndi dæmi um flutning á hjarta til Svíþjóðar.

Líftími hjarta í flutningum er um fjórir klukkutímar. Í dag tekur korter að koma því úr sjúkling í flug á Reykjavíkurflugvöll, þrjár klukkutíma að fljúga með það út. Eftir standa 45 mínútur til þess að koma því frá flugvelli í Svíþjóð á spítala. 

Spurður út í heimildir íbúa fyrir því að fara eigi í framkvæmdina á næstu vikum eða dögum segir Garðar það vera grunur fólks. Íbúar séu farnir að heyra það í kringum sig að þetta eigi að hefjast í sumar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert