Rafmagnslaust varð á Norðurlandi

Rafmagnsleysið nær víða, þar á meðal til Akureyrar.
Rafmagnsleysið nær víða, þar á meðal til Akureyrar. mbl.is/Sigurður Bogi

Vegna útleysingar á Rangárvöllum varð rafmagnslaust á Akureyri og nágrenni ásamt Dalvík og nærsveitum þar. Rafmagn fór af klukkan 18:26 og var komið á aftur klukkan 18:46.

Fram kemur í tilkynningu á vef Landsnets að verið sé að skoða ástæðu útleysingarinnar. 

Rafmagnsleysið hafði áhrif á leik KA og Víkings í efstu deild karla í fótbolta um stund, en rafmagnið fór af vellinum. Það er þó komið aftur og boltinn heldur áfram að rúlla. 

Uppfært klukkan 19.56: 

Að sögn Steinunnar Þorsteinsdóttur, upplýsingafulltrúa Landsnets var verið að vinna í stjórnbúnaði í tengivirki Landsnets á Rangárvöllum.

„Það sló út hjá okkur, við vitum ekki nákvæmlega hvað eða hvernig, það er hlutur sem er í skoðun núna. Það var ástæðan fyrir því að rafmagnið fór af þessu svæði,“ segir Steinunn.

Ekki er búist við því að meira rafmagnsleysi verði á svæðinu í dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert