Stöðva þarf vítahringinn

Björn Leví Gunnarsson.
Björn Leví Gunnarsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Stýrivaxtahækkun Seðlabanka Íslands í gær sýnir að efnahagsástandið í landinu er ekki eins gott ríkisstjórnin hefur haldið fram síðan í fjárlagaumræðunni í fyrra.

Þetta segir Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, spurður út í ákvörðun peningastefnunefndar bankans um að hækka vextina um 1,25 prósentustig.

Inntur eftir því hvað stjórnvöld þurfi að gera til að bæta ástandið segir hann þörf á meira aðhaldi og að hleypa þurfi lofti úr hagkerfinu þar sem bólan sé að myndast með hnitmiðuðum aðgerðum.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningastefnu, á kynningarfundi …
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningastefnu, á kynningarfundi í gær. mbl.is/Hákon

Hann telur stýrivaxtahækkunina ekkert endilega hafa áhrif á þá hluta hagkerfisins sem eru að valda verðbólgunni að miklu leyti. Ef eitthvað er gerir hækkunin það að verkum að erfiðara verður að laga þá hluti, eins og húsnæðismarkaðinn.

„Það er verið að seilast afturvirkt í vasa fólks sem er búið að taka húsnæðislán og búið að skuldbinda sig og það er verið að rukka það aukalega þrátt fyrir gerða samninga á þeim vettvangi. Fyrir fólk sem er að reyna að komast að nýju inn og fólk sem er á leigumarkaði þá er þetta ennþá harkalegra,” segir Björn Leví.

Ráðherrar er fjármálaáætlun var kynnt.
Ráðherrar er fjármálaáætlun var kynnt. Árni Sæberg

Þarf ákveðna jafnvægislist

Hann bætir við að leysa þurfi húsnæðisvandann með auknum útgjöldum. Til þess að koma í veg fyrir framtíðarbólumyndun á húsnæðismarkaði þurfi framboðið að vera nægilega mikið til að dekka upp eftirspurnina. „Ef það er ekki gert verður þrýstingurinn þar bara áfram og áfram og áfram,” greinir hann frá og bendir á að ákveðin jafnvægislist sé í því fólgin að gera þetta á sama tíma og þörf sé á aðhaldi í ríkisfjármálum.

„Það munu tvímælalaust vera ákveðin bóluáhrif af því að leysa húsnæðisvandann en ef það er tappað af því á réttum stöðum á sama tíma þá að lokum klárast það, í staðinn fyrir núverandi ástand þar sem það heldur bara áfram.”

Kjarabótum skóflað í burtu

Þingmaðurinn segir vanda heimilanna eiga eftir að aukast um leið og hækkanir vegna verðbólgu fara að bíta enn frekar. Þær séu vissulega farna að bíta á fólk með lægri tekjur og í leiguhúsnæði en stærð þess hóps hafi ekki verið nógu mikil til að ríkisstjórnin hafi látið sig málið varða.

„Eftir því sem verðbólgan og vaxtastigið haldast áfram tekur það stærri og stærri hluta af fólki í þessi vandræði. Það er verið að skófla í burt öllum kjarabótum undanfarinna ára,” segir hann.

Hverjar verða rústirnar?

„Það er þarna hnútur sem ekki er verið að leysa í neinni ríkisfjármálaáætlun. Það er ekki verið að leysa hann með því að taka sleggjuna sem stýrivextir eru. Að lokum virkar það á einhvern hátt en hverjar verða rústirnar eftir það?” heldur hann áfram og viðurkennir að staðan sé gríðarlega flókin. Byrja þurfi að fara í stóru þættina á borð við húsnæðisvandann.

Seðlabanki Íslands.
Seðlabanki Íslands. mbl.is/Golli

Björn Leví nefnir að skoða þurfi leigubremsu eða leiguþak sem einn möguleika. „Það er stundum nauðsynlegt að grípa til þess háttar stjórntækja til að stöðva þennan vítahring sem er í gangi. Verðbólgan er að mata sig sjálfa af því að við erum með vísitölutengingar úti um allt,” greinir hann frá og nefnir húsaleigusamninga sem dæmi. „Ef það er ekki settur þröskuldur fyrir vítahringinn þá heldur hann áfram að spíralast.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert