Telja köfnun líklegustu dánarorsökina

Annar dagur í aðalmeðferð máli Steinu Árnadóttur, hjúkrunarfræðings, var í …
Annar dagur í aðalmeðferð máli Steinu Árnadóttur, hjúkrunarfræðings, var í dag. Áætlað er að meðferðinni ljúki á morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Réttarlæknir sem bar vitni í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag segir dánarorsök sjúklings sem lést á geðdeild í ágúst 2021 vera köfnun af sökum kremkennds efnis. 

Annar dagur í aðalmeðferð máls hjúkrunarfræðingsins, Steinu Árnadóttur, fór fram í dag. Steina er ákærð fyrir að verða sjúklingi sínum á geðdeild að bana, með því að þvinga ofan í hana næringardrykk sem varð til þess að hún kafnaði. 

Atvikið átti sér stað þann 16. ágúst 2021 á deild A33 á geðdeild landsspítalans. Steina heldur því fram að hún hafi reynt að bjarga lífi sjúklingsins, með því að gefa henni nokkra sopa af næringardrykk, eftir að spergilkálsbiti stóð í henni. Samstarfskonur hennar segja hana hins vegar hafa þvingað tvær flöskur af drykknum ofan í sjúklinginn, þrátt fyrir að hún streittist á móti, með þeim afleiðingum að hún kafnaði. 

Var með mikla bráðalungnaþembu

Réttarlæknar sem unnu krufningarskýrslu hinnar látnu segja dánarorsök vera köfnun af sökum hvíts, kremkennds efnis í lungum. Bæði sögðu sjúklinginn hafa andað inn efninu í gegn um vitin og inn í lungun. Mikil bráðalungnaþemba hafi greinst í hinni látnu, sem var töluvert víðtækari en ef einstaklingur andar inn mat fyrir slysni. 

„Hún hefur andað meira en minna, þetta er umtalsvert meiri og dýpri dreifing á þessu efni en maður sér í tilfellum þar sem fólk óvart andar inn mat og kafnar,“ sagði annar réttarlæknanna.

Lungun hafi þurft að vera starfandi til þess að vökvi gæti borist í þau, þar sem vökvi kemst ekki í lungun í slíku magni nema við innöndun. Verjandi hinnar ákærðu, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, spurði hvort vökvinn hefði ekki getað farið ofan í lungun við endurlífgun og svöruðu báðir réttarlæknar játandi. Hvorugt þeirra taldi hins vega að vökvinn gæti dreift sér svo víða og djúpt í lungunum ef um slíkt tilfelli væri að ræða.

Annar réttarlæknanna sagði það líklegt að efnið hafi verið vökvi sem sjúklingurinn hafi andað að sér. Lungun hafi hins vegar dragi hins vegar í sig allan vökva og því hafi það breyst í kremkennt efni.

Fannst lítið magn blómkáls í lungum

Einnig fannst lítið magn af blómkáls örðu í lunga sjúklingsins. Mest magn fannst þó í maga hennar og lítið magn í vélinda. Hjúkrunarfræðingnum og samstarfskonum hennar ber öllum saman um að blómkáls eða spergilkálsbiti hafi staðið í hálsi sjúklingsins og hún hóstað honum upp áður en Steina hóf að hella upp í hana næringardrykk.

Tveir sjúkraliðar báru einnig þess vitni að þeir hefðu séð slíkan bita á gólfinu við aðkomu. Af þeim fjórum sjúkraflutningamönnum sem höfðu aðkomu að slysinu, sögðust allir hafa orðið þess varir að vökvi var í munni sjúklingsins við aðkomu. Einn þeirra lýsti vökvanum sem mjólkurkenndum en hann sagði það óvenjulega sjón við endurlífgun. 

Einn sjúkraflutningamannanna minnist þess að sterk jarðaberjalykt í herberginu og af sjúklingnum, en ein samstarfskvenna hjúkrunarfræðingsins, bar þess vitni í gær að næringardrykkirnir hefðu verið með jarðaberjabragði. Tæknimaður lögreglu bar þess einnig vitni að sjúklingurinn hefði verið blaut í framan og mikill vökvi framan á henni eins og hann hefði komið upp úr henni. 

Sjúklingurinn lést á deild A33 á geðdeild Landspítalans.
Sjúklingurinn lést á deild A33 á geðdeild Landspítalans. mbl.is/Sigurður Bogi

Telur ekki um klósapíneitrun að ræða

Háir skammtar af geðlyfjum mældust einnig í blóði sjúklingsins, þar á meðal sérstaklega hár skammtur af geðrofslyfinu klósapín. Samkvæmt sérfræðingum voru mælingar lyfsins mögulega banvænar, en að erfitt sé að segja til um það þar mælingar lyfsins séu mjög breytilegar eftir þáttum. Til að mynda geti nikótínneysla haft áhrif á mælingu lyfsins og sýna rannsóknir einnig fram á að mælingar geti breyst eftir andlát. 

Réttarlæknir segir ólíklegt að hún hafi látist af klósapíneitrun ef horft sé til annarra þátta í aðdragandi andláts sjúklingsins. Dánarorsök séu túlkuð út frá krufningu, sjúkrasögu og utanaðkomandi þáttum. Mikilvægt sé að horfa á heildarmyndina en ekki aðeins mælingar í blóði. 

Hann segir það ekki óvenjulegt að það finnist banvænt magn af eiturefnum við krufningu á einstaklingum. Það þýði hins vegar ekki að það hafi dregið viðkomandi til dauða. Hann hafi horft til mælanlegra gilda um lífsmörk sjúklingsins áður en hún lést og samkvæmt þeim var hún vakandi, andandi, með hjartslátt, blóðþrýsting og tjáði sig rétt fyrir dauðann. Hefði hún látist af klósipíneitrun hefðu lífsmörk hennar og hegðun ekki verið með þeim hætti.

Verjandi hinnar ákærðu dró í efa hvort réttmætt væri að frásagnir vitna væru tekin inn í túlkun á dánarorsökum sjúklingsins. Meinafræðingur svaraði þá að við krufningu hefði aðeins verið haft á bakvið eyrað að lífsmörk sjúklingsins hefðu verið góð fyrr um daginn. Hún benti hins vegar á að lífsmörk hefðu einnig verið tekin á bráðamóttöku fyrr um daginn.  

Ekki viðurkennd aðferð að gefa kafnandi fólki að drekka

Steina sagði sjálf í framburði sínum að henni hefði verið kennt árum áður að gefa fólki að drekka ef stæði í fólki. Hún kvaðst hafa slegið á bak sjúklingsins þegar stóð í henni blómkáls eða spergilkálsbiti, með þeim afleiðingum að sjúklingurinn hóstaði honum upp. 

Hún hafi síðan gefið henni nokkra sopa af næringardrykk. Samstarfskonur hennar segja hana hins vegar hafa helt tveimur flöskum af drykknum í munn sjúklingsins gegn vilja hennar. 

Læknir sem bar vitni í málinu sagði það ekki viðurkennda aðferð að hella vökva upp í fólk ef talið er að standa í þeim. Hann kannist heldur ekki við að það hafi verið áður viðurkennt. 

mbl.is