Blindur maður þarf ekki að hafa áhyggjur af áhorfendum

Valdimar Sverrisson og Guðni Ágústsson í einu grínmyndbanda Valdimars.
Valdimar Sverrisson og Guðni Ágústsson í einu grínmyndbanda Valdimars. Skjáskot/YouTube

Valdimar Sverrisson langaði lengi að vera uppistandari. Það stóð þó í honum að standa frammi fyrir áhorfendum ef einhverjum í salnum þætti hann ekki fyndinn.

Hann segir það mál hafi verið leyst eftir alvarlega aðgerð árið 2015, en Valdimar missti sjónina í kjölfarið. Nú sér hann ekki lengur þá sem ekki hlæja.

Valdimar hefur þegar stutt ötullega við starf Grensásdeildar og heldur því áfram með styrktarsýningu í Hannesarholti 10. ágúst. Eins ætlar hann að hlaupa í Reykjavíkurmaraþoninu til styrktar Grensási.


Æxlið á stærð við sítrónu

Grensásdeild er Valdimar kær en þar hlaut hann endurhæfingu eftir alvarlega aðgerð árið 2015. Þá greindist hann með góðkynja heilaæxli sem var á við sítrónu að stærð og hafði verið að þróast í 10-15 ár.

Eftir aðgerðina segist hann hafa verið eins og sprungin blaðra, blindur með ónýtar sjóntaugar og þurft að læra að ganga upp á nýtt. Hann á því Grensásdeild mikið að þakka og vill gefa til baka.

Sem hann lá á Grensásdeild rifjaðist upp gamall draumur um uppistand og fyrirvarinn um að standa frammi fyrir ógnvekjandi sal var horfinn, þar sem hann sá ekki lengur áhorfendur, nú orðinn blindur.

Hann hefur gert grínmyndbönd, þar sem hann fær þekkta einstaklinga úr þjóðfélaginu til að leika á móti sér. Á uppistandinu í Hannesarholti í ágúst hyggst hann sýna nokkur slík myndbönd og að auki örmyndina Einu sinni var í Reykjavík – ástardrama, sem hann er nú með í vinnslu.

Safnað fyrir sjúkrarúmi

Eitt og annað vantar inn á Grensásdeild fyrir utan aukið pláss. Valdimar setti sig í samband við Sigríði Guðmundsdóttur, deildarstjóra þar, sem tjáði honum að þar vantaði sérhæft rúm, sem Valdimar safnar fyrir að þessu sinni. Hannesarholt hefur líka reynst honum vel, þar sem hann fær húsið endurgjaldslaut fyrir styrktarsýningu sína.

Nánar um sýningu Valdimars má finna á Tix.is.

mbl.is