Boðar ekki til fundar nema eitthvað breytist

Elísabet S. Ólafsdóttir, aðstoðarsáttasemjari og Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður SNS.
Elísabet S. Ólafsdóttir, aðstoðarsáttasemjari og Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður SNS. Samsett mynd

Ríkissáttasemjari telur ekki ástæðu til að boða til fundar í kjaradeilu BSRB og Sambands íslenskra sveitarfélaga (SNS) eins og staðan er núna. Formaður SNS býst við fundi í dag.

„Við erum í sambandi við deiluaðila og fylgjumst vel með en það er ekki búið að boða til fundar,“ segir Elísabet S. Ólafsdóttir, aðstoðarsáttasemjari hjá embætti ríkissáttasemjara í samtali við mbl.is.

Hún og Aldís Sigurðardóttir aðstoðarsáttasemjari sjá um deilur BSRB og SNS frá bæjardyrum ríkissáttasemjara. Þær telja ekki ástæðu til að boða til nýs fundar í kjaradeilunni.

„Ef eitthvað nýtt er í stöðunni og við metum stöðuna þannig að það sé ástæða til að halda sameiginlegan fund þá gerum við það,“ segir Elísabet.

Búast við fundi í dag

Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður SNS, býst þó við því að fundur verði í dag, en Elísabet kannast ekki við það.

„Við búumst við því að það verði fundur í dag. Við vonumst alltaf til þess að það þokist eitthvað í samningsátt, við erum í það minnsta öll af vilja gerð til að leita lausna og leiða. Við getum ekki tekið upp fyrri samning, en allt það sem mögulegt er í þessum samningi erum við tilbúin til að skoða,“ sagði Heiða Björg í samtali við mbl.is í morgun.

mbl.is