Óánægja með skerta starfsemi

Ekkert minni ábyrgð er sett á leikskólakennara sem eru í …
Ekkert minni ábyrgð er sett á leikskólakennara sem eru í BSRB heldur en annarra stéttarfélaga, að sögn Elvu Hrannar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Óánægja er með skerta starfsemi í leikskóla í sveitarfélaginu Árborg vegna verkfallsaðgerða félaga BSRB. Hún beinist þó ekki gagnvart leikskólanum né starfsfólki þess, að sögn Elvu Hrannar Alfreðsdóttur, leikskólakennaranema og deildarstjóra í téðum leikskóla í Árborg.

„Ég finn fyrir að það er óánægja vegna þess að það er skert starfsemi. Ég upplifi óánægjuna ekkert beinast gagnvart leikskólanum. Það eru allir skilningsríkir fyrir því að það sé óásættanlegt að starfsfólk sinni sömu vinnunni en sé á misháum launum,“ segir Elva Hrönn í samtali við mbl.is.

„Við sem höfum verið að starfa samhliða þessu fólki skiljum þetta engan veginn. Við erum ekkert að setja minni ábyrgð á þau sem eru á lægri launum og þau eru ekkert að sinna minna starfi. Það ætti náttúrulega að vera sömu laun fyrir sömu störf,“ segir Elva.

Elva Hrönn Alfreðsdóttir, leikskólakennaranemi og deildarstjóri í leikskóla í sveitarfélaginu …
Elva Hrönn Alfreðsdóttir, leikskólakennaranemi og deildarstjóri í leikskóla í sveitarfélaginu Árborg. Ljósmynd/Aðsend

Aukið álag á kennara, börn og foreldra

„Þetta er mikil vinna og erfiðleikar sem fylgja þessu, þrátt fyrir að allir sem eru utan BSRB styðji samstarfsfólkið okkar. Það er mikið púsl sem fylgir þessu því við getum ekki sinnt fullri þjónustu þegar við erum ekki fullmönnuð. Þetta er mikið aukaálag á okkur, börnin og foreldrana,“ segir Elva.

Hún segir að skólinn þurfi að taka á móti færri börnum á meðan verkfallsaðgerðum stendur. Það þýði til dæmis stundum að loka þurfi heilum deildum hálfan dag í einu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert