Skiptir sér ekkert af vopnakaupum

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra.
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég skipti mér ekkert af því hvaða vopn lögreglan er að kaupa,“ segir Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra spurður eftir ríkisstjórnarfund í dag um hvers kyns vopn séu nú vopnabúri lögreglunnar eftir vopnakaup í tengslum við Evrópuráðsfund sem haldinn var á Íslandi um miðjan mánuð.

Telur þú ekki skipta máli hvers konar vígbúnaður það er sem lögregla hefur aðgang að?

„Menn geta kallað þetta vígbúnað en þetta eru fyrst og fremst öryggistæki fyrir lögreglu til að geta brugðist við og tryggt öryggi borgaranna hér á landi. Það var mikið átak fyrir lögreglu að takast á við Evrópuráðsfundinn.

Ætli við getum ekki sagt að ef ráðstefnan hefði verið í nágrannalöndunum í kringum okkur þá hefði verið fimmfaldur mannafli lögreglumanna samanborið við hvað var hérna. Því þurfti ákveðinn búnað til þess að geta tryggt öryggi á svona stórum alþjóðlegum fundi og lögreglan fékk heimild til að kaupa það sem þurfti. Hvernig þau búnaðarkaup skiptust, ég hef ekkert yfirlit yfir það,“ segir Jón.

Lögregla var vopnum búin á Evrópuráðsfundi.
Lögregla var vopnum búin á Evrópuráðsfundi. AFP

Varnarbúnaður keyptur á hverju ári

Spurður hvort hann telji eðli vopnanna ekki skipta máli út frá pólitískum sjónarmiðum þá telur Jón svo ekki vera.

 „Nei, það er verið að kaupa varnarbúnað fyrir lögreglu, vopn og annað á hverju einasta ári. Það er innan þeirra fjárheimilda sem lögregla hefur til að sinna sínu hlutverki,“ segir Jón.   

mbl.is