Skoða þurfi niðurskurð opinberra starfsmanna

Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.
Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra. mbl.is/Sigurður Bogi

Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra segir að til greina komi að grípa til uppsagna í opinbera geiranum í ljósi skarprar fjölgunar opinberra starfsmanna.

Fyrst þurfi þó að fara í greiningu á því hvar starfsmönnum hefur fjölgað. Hluti kann að skýrast af eðlilegum orsökum vegna aukinna umsvifa velferðarmála. 

Greina þarf samkeppni við atvinnulíf

Starfsmönnum hins opinbera fjölgaði um ríflega 22% á árunum 2015-2022. Fjölgaði störfum á vegum hins opinbera sérlega mikið í kórónuveirufaraldrinum árin 2020 til 2021.

Á tímabili voru fleiri opinberir starfsmenn en starfsmenn í einkageira hér á landi. 

Þróun á fjölda launafólks á vinnumarkaði 2010-2022.
Þróun á fjölda launafólks á vinnumarkaði 2010-2022.

Lilja telur mikilvægt að fara í greiningarvinnu til að skoða hvar sú fjölgun liggur. „Ef það er svo að við erum með umframvöxt þar sem atvinnulífið er að keppast um starfsfólk þá þarf að huga að því,“ segir Lilja.  

Aðhaldssemi í opinberum rekstri 

Þá segir hún aðspurð að þjóðarsátt þurfi um að berjast gegn verðbólgu.

„Fjármál hins opinbera þurfa að vera aðhaldssamari til að vinna gegn væntingum markaðsaðila auk þess sem vinnumarkaðurinn þarf að koma að þessu borði. Laun hafa vaxið mun meira hérlendis en í samanburðarlöndunum. Hér er mikill hagvöxtur og það þarf að hægja á hagkerfinu til að ná mjúkri lendingu og við skorumst svo sannarlega ekki undan því,“ segir Lilja. 

mbl.is