Draumurinn rættist loks á tindi Everest

Ís­lensk-kúbverski fjallagarp­ur­inn Yan­dy Núñez Mart­inez lét langþráðan draum rætast þegar hann náði á topp Ev­erest-fjalls í síðustu viku. Hann er fyrsti Kúbverjinn til þess að klífa þetta hæsta fjall heims og tileinkaði afrekið öllum þeim sem búið hafa við kúgun ríkisstjórnar í heimalandi sínu. Hann segir alls ekki sjálfsagt að hafa frelsi til þess að láta drauma sína rætast.

Ferðalagið var önnur tilraun Yandi til þess að ná á topp Everest en í fyrra skiptið, í júní árið 2021, þurfti að flytja hann á gjörgæslu vegna kórónuveirusmits þegar hann var kominn upp í 7.000 metra. 

Í þetta sinn gekk ferðalagið betur og kleif Yandi tindinn miðvikudaginn 17. maí síðastliðinn. Ferðalagið, sem hófst þann 8. apríl þegar hann lagði af stað frá Katmandú, höfuðborg Nepals, hafði þá staðið í rúman mánuð.

Draumurinn vaknaði í íslenskri náttúru

Aðspurður hvernig honum líði eftir ferðalagið segist Yandi vera ánægður með að vera kominn heim. Tilfinningin við að klífa tindinn hafi verið mögnuð og hann sé sérstaklega stoltur yfir því að hafa klifið tindinn sem fulltrúi bæði Kúbverja og Íslendinga.

Hugmyndin um að klífa tind Everest hafi orðið til þegar hann tók þátt í starfi Björgunarsveitarinnar og fékk að kynnast íslenskri náttúru. Til að undirbúa sig fyrir fjallgönguna hafi hann klifið ýmis fjöll, svo sem Esjuna og Hvannadalshnjúk, og gengið á jökla.

Erfiðara er þó að undirbúa sig andlega, segir Yandi. „Það er aldrei að vita hvað gerist þegar þú ert mættur á fjallið eða hvernig þér muni líða.“

Yandi hafði áður gengið á Everest, í júní 2021, en …
Yandi hafði áður gengið á Everest, í júní 2021, en náði ekki á toppinn vegna veikinda. Reynsluna frá fyrri leiðangri tók hann með í fararteskinu.

Kleif tind Everest-fjalls fyrir ömmu

Á toppnum nýtti Yandi tækifærið til þess að heiðra minningu ömmu sinnar sem lést skyndilega árið 2014. Þá tileinkaði hann afrekið einnig öllum þeim sem þjáðst hafa vegna ógnarvalds ríkisstjórnarinnar á Kúbu. 

„Það er ekki sjálfsagt fyrir einhvern eins og mig, sem kem frá Kúbu, að hafa frelsi til þess að láta draum sinn rætast. Andlát ömmu rótaði upp miklum tilfinningum, en hún ól mig eiginlega upp. Ég tileinka afrekið henni og öllum öðrum sem þjáðst hafa vegna kúgunar ríkisstjórnar Kommúnista á Kúbu.“

Þá bætir Yandi við að á Íslandi hafi honum samstundis fundist hann geta verið frjáls. „Ég held að einungis sá sem lifað hefur án frelsis skilji hvers virði frelsið raunverulega er.“

Hópurinn kleif tindinn að kvöldi 17. maí eftir stutta hvíld …
Hópurinn kleif tindinn að kvöldi 17. maí eftir stutta hvíld í tjaldbúðunum.

Í svefnpokanum þegar leggja átti af stað á tindinn

Síðasti spölurinn var nokkuð óvæntur. Lagt var af stað á tindinn þegar hópurinn var nýkominn upp í síðustu tjaldbúðirnar sem eru í tæplega 8.000 metra hæð. „Ég fékk nánast enga hvíld. Ég var kominn í svefnpokann þegar Sjerpinn, leiðsögumaðurinn minn, tilkynnir að við séum að leggja af stað upp á toppinn.“

Hvernig var síðan tilfinningin þegar þú náðir upp á toppinn?

„Mér fannst ég vera að lifa lífinu til hins fyllsta. Draumurinn minn hafði ræst. Ég áttaði mig á því að ég hefði margoft séð þetta fyrir mér, en nú væri þetta að gerast. Allt varð skyndilega hljótt og ég hugsaði „Vá, getur virkilega verið að þetta sé satt?““

Leiðin niður var hins vegar erfiðari. „Á leiðinni niður í grunnbúðirnar var ég gjörsamlega búinn á því. Oft á köflum var þetta svakalega erfitt, maður þurfti að gæta að hverju skrefi og vera með fulla einbeitingu.“

Skilaboð Yandi til lesenda og allra þeirra sem dreymir um að klífa þennan hæsta tind heims eru skýr. „Trúðu á sjálfan þig. Vertu alltaf þú sjálfur, ekki reyna að vera einhver annar en þú ert. Leggðu kapp á að elta drauma þína og vertu opinskár um þá.“

​Yan­di Núñez Mart­inez hefur búið á Íslandi í átta ár. …
​Yan­di Núñez Mart­inez hefur búið á Íslandi í átta ár. Hann segir íslenska náttúru hafi vakið upp drauminn um að ganga á Everest.
mbl.is