Öllum náttúrufræðingum á náttúrufræðistofu sagt upp

Náttúrufræðistofa Kópavogs er staðsett í Safnahúsinu á Kópavogshálsi ásamt Bókasafni …
Náttúrufræðistofa Kópavogs er staðsett í Safnahúsinu á Kópavogshálsi ásamt Bókasafni Kópavogs, Salnum og Tónlistarskóla Kópavogs. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Öllum náttúrufræðingum við Náttúrufræðistofu Kópavogs hefur verið sagt upp störfum og rannsóknarhluti þess hefur verið lagður niður. Uppsagnirnar eru hluti af niðurskurðaraðgerðum sem sveitarfélagið kynnti í vor.

„Allir náttúrufræðingar munu ljúka störfum 31. maí,“ segir Finnur Ingimarsson, forstöðumaður Náttúrufræðistofu Kópavogs, og bætir því við að rannsóknarhluti stofunnar hafi verið lagður niður. Enn er óljóst hve lengi safnahlutinn verður starfræktur í núverandi mynd.

Nú er unnið að því að finna þeim rannsóknarverkefnum sem voru í gangi á Náttúrufræðistofu Kópavogs nýjan stað. Í því skyni hafi verið leitað til Hafrannsóknarstofnunar, Náttúrufræðistofu Íslands og Náttúruminjasafni Íslands.

Stöðugildum fækkað um fjóra

Fyrirætlanir sveitarfélagsins gerðu ráð fyrir því að starfsgildum myndi fækka úr 33 í 29 en eitt stöðugildi hefur nú þegar verið fært frá náttúrufræðistofunni og í Gerðarsafn. Nú liggur fyrir að hluti þessara starfsgilda sem mun hverfa á brott eru náttúrufræðingar.

„Það stendur til að búa til eitt stöðugildi verkefnastjóra sem mun heyra undir Gerðarsafn sem yrði náttúrufræðingur sem mun sæi um fræðslu og einhverja viðburði,“ segir Finnur sem segir þó enn eiga eftir að móta þetta starfsgildi.

Í tilkynningu frá Kópavogsbæ var gert ráð fyrir nýju „upp­lif­un­ar- og fræðslu­rými á fyrstu hæð Bóka­safns Kópa­vogs sem tekið verður í notk­un á ár­inu 2024. Rík áhersla verður lögð á viðburði, sýn­ing­ar og fræðslu þar sem bók­mennt­ir, mynd­list, nátt­úru­vís­indi og tónlist mæt­ast í einu og sama rými sem miðar við börn og fjöl­skyld­ur“. 

Náttúrufræðistofa Kópavogs hefur verið starfrækt frá árinu 1983 og yrði því 40 ára á árinu. Safnið státar af stærsta safni uppstoppaðra dýra á Íslandi.

mbl.is