„Var handviss um að verða ekki eins og mamma“

Helga Guðrún Guðmundsdóttir útskrifaðist í gær frá Tækniskólanum.
Helga Guðrún Guðmundsdóttir útskrifaðist í gær frá Tækniskólanum.

Helga Guðrún Guðmundsdóttir, 29 ára móðir úr Kópavogi, hlaut verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í faggreinum þegar hún útskrifaðist úr hársnyrtiiðn frá Tækniskólanum í gær. Móðir Helgu Guðrúnar er hársnyrtir og ætlaði Helga Guðrún ekki að feta í fótspor hennar. 

„Ég var handviss um að verða ekki eins og mamma, mér fannst hún vinna alltof mikið. Þegar ég varð eldri sá ég hlutina frá nýju sjónarhorni, hún var einstæð þriggja barna móðir sem þurfti heldur betur að hafa fyrir hlutunum. Hún er mín fyrirmynd í lífinu. Ég er búin að prófa ýmislegt. Ég fór í viðskiptafræði, kláraði Ferðamálaskólann í Kópavogi og skráði mig síðan í flugfreyjuna, en sá draumur fór í ruslið þegar WOW fór á hausinn,“ sagði Helga sem flutti ræðu fyrir hönd nemenda. 

Það varð því loks úr að Helga Guðrún skráði sig í nám í hársnyrtiiðn og fann strax að nú væri hún á réttri hillu. Það sem heillaði hana hvað mest við hársnyrti­deildina er stemmn­ingin, að vinna í opnu rými og metnaðarfullir sam­nem­endur hennar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert