Dúxaði tvær helgar í röð og braut blað í leiðinni

Rut hlaut sérstaka viðurkenningu fyrir góðan árangur á útskriftarathöfninni.
Rut hlaut sérstaka viðurkenningu fyrir góðan árangur á útskriftarathöfninni. Ljósmynd/Aðsend

Rut Rebekka Hjartardóttir náði þeim merka áfanga að útskrifast með hæstu einkunn úr tveimur skólum tvær helgar í röð. Fyrst úr Danslitarskóla JSB síðustu helgi og síðan nún um helgina frá Kvennaskólanum í Reykjavík.

Rebekka lét það þó ekki duga einvörðungu, heldur hlaut hún hæstu einkunn sem gefin hefur verið á stúdentspróf í 149 ára sögu Kvennaskólans, 9,97. Hún hlaut að launum verðlaun úr Minningarsjóði frú Þóru Melsteð.

Langflest var tíu og einstaka níur

Rut fékk einkunnina 10 í öllum áföngum sem hún þreytti í Kvennaskólanum að undanskildum tveimur þar sem einkunnin 9,0 þurfti að duga.

Í Danslistarskóla JSB var hún að fá svipaðar einkunnir en Rut útskrifaðist þar með meðaleinkunn upp á 9,5.

„Ég hafði ekki hugsað mikið út í þetta. En þetta bara gerðist þarna í lokin og svo endaði þetta svona“ segir Rebekka sem er að vonum sátt með árangurinn.

Rut hefur komið að ýmis konar dansverkefnum á meðan menntaskólagöngunni …
Rut hefur komið að ýmis konar dansverkefnum á meðan menntaskólagöngunni stóð. Ljósmynd/Aðsend

Dansinn gengur fyrir í bili

Spurð hvor námsleiðin hafi átt betur við hana segir Rut báðar spennandi en að næstu skref verði líklega tekin á dansgólfinu. Fyrst muni hún þó að taka pásu frá námi, vinna og fara í útskriftarferð. 

Að ári liðnu hyggst Rut leggja land undir fót og sækja dansnám erlendis.

„Mig langar að elta drauminn það hefur alltaf verið planið að fara út og sjá hvernig heimurinn er og koma svo líklega aftur heim“.

Læknisfræðin ef hitt klikkar

Þrátt fyrir mikinn áhuga á dansi leikur bóknám greinilegum í höndum Rutar sem viðurkennir að hún hafi lengi haft hug á því að nema læknisfræði.

„Ég hef oft grínast með það að ég muni verða dansari og koma svo aftur í lækninn“ segir Rut sem útskrifaðist af náttúruvísindabraut og segist sjálf áhugasöm um bæði raunvísindi og lífefnafræði.

Dansdraumurinn verður þó sá fyrsti sem Rut eltir enda eldast liðir og limir hraðar en heilinn.

mbl.is