Gular viðvaranir og glampandi sól

Veðrið í höfuðborginni verður nokkuð hlutlaust næstu daga. Hvorki öfgar …
Veðrið í höfuðborginni verður nokkuð hlutlaust næstu daga. Hvorki öfgar í sól né öðru veðurfræðilegu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í dag er útlit fyrir suðvestan strekking nokkuð víða, og gera má ráð fyrir hvössum vindstrengjum við fjöll við Breiðafjörð, á Vestfjörðum og á Norðurlandi.

Af þeim sökum hafa gular vindviðvaranir verið gefnar út á þessum svæðum og varasamt er að vera á ferðinni á ökutækjum sem eru viðkvæm fyrir vindi.

Þá verður víða súld eða rigning á landinu og hiti 7 til 12 stig, en í dag á að birta til norðaustan- og austanlands og þar gæti hiti farið í 20 stig síðar í dag.

Eftir hádegi á morgun dregur svo úr vindi og úrkomu.

Um og eftir miðja vikuna gera spár ráð fyrir að fyrirstöðuhæð sem stödd er suður í hafi og hefur beint lægðum til landsins, þokist norður á bóginn, nær landinu. Það þýðir minni úrkoma og vindur, en áttin verður áfram vestlæg.

Vestanlands verður því væntanlega skýjað, en lítil úrkoma úr þeim skýjum. Á austurhelmingi landsins má búast við björtum og hlýjum dögum.

Veðurhorfur næstu daga:

Á þriðjudag:
Suðvestan og vestan 8-15 m/s, en 15-20 í vindstrengjum á norðanverðu landinu. Dregur úr vindi eftir hádegi. Víða dálítil væta, en bjartviðri austanlands. Hiti 8 til 18 stig, hlýjast á Austfjörðum.

Á miðvikudag:
Vestlæg eða breytileg átt 3-10. Þurrt veður og skýjað með köflum. Hiti 8 til 18 stig, hlýjast á Suðausturlandi.

Á fimmtudag, föstudag og laugardag:
Suðvestan og vestan 5-13, hvassast norðvestantil á landinu. Skýjað og úrkomulítið um landið vestanvert, en yfirleitt léttskýjað á austurhelmingi landsins. Hiti 10 til 20 stig, hlýjast austanlands.

Á sunnudag (sjómannadagurinn):
Sunnan 3-8 og lítilsháttar rigning, en bjartviðri og hlýtt norðaustan- og austanlands.

Veður á mbl.is

mbl.is