„Mig langaði bara að gráta“

Jacek Kowalik á heimili sínu í Breiðholti.
Jacek Kowalik á heimili sínu í Breiðholti. mbl.is/Hákon

Jacek Kowalik er 34 ára fjölskyldumaður frá Póllandi sem ákvað að setjast að hér á landi fyrir fimm árum síðan. Eftir að hafa verið á erfiðum leigumarkaði keypti hann ásamt pólskri konu sinni íbúð í fjölbýlishúsi í Breiðholti í september í fyrra. Þau þurftu að taka tvö lán fyrir íbúðinni og voru þau bæði óverðtryggð með breytilegum vöxtum. Fyrst um sinn var afborgunin um 300 þúsund krónur á mánuði en hefur síðan þá stökkbreyst og er núna komin í um 450 þúsund krónur.

Þegar blaðamaður og ljósmyndari banka upp á hjá Kowalik í umræddri íbúð er hann bæði afslappaður og vinalegur. Það fyrsta sem fangar augun er fallegt útsýnið úr stofunni yfir Breiðholtið og Árbæinn, þó svo að veðrið sé ekki upp á marga fiska. Íbúðin sjálf er falleg, án þess að íburðurinn sé mikill. Eftir að hafa setið fyrir hjá ljósmyndaranum er röðin komin að því að spyrja gestgjafann nánar út vandann sem þessi pólsk/íslenska fjölskylda stendur frammi fyrir.

Leikskólavandræði 

Kowalik starfar sem þjónn á Höfninni, sem er veitingastaður við smábátahöfnina í Reykjavík. Konan hans hefur aftur á móti ekki getað farið út á vinnumarkaðinn síðan þau eignuðust sitt annað barn. Ástæðan fyrir því er skortur á leikskólaplássi. Breyting verður sem betur fer á því í september þegar bæði börnin þeirra, eins og hálfs og þriggja ára, byrja á leikskóla í Breiðholti en núna þurfa þau að aka með það eldra á leikskóla í Vesturbænum. Þegar þau bjuggu í Vesturbænum þurftu þau á hinn bóginn að keyra með eldra barnið í leikskóla í Árbænum því ekkert pláss var þá í boði í nágrenni þeirra þrátt fyrir loforð um annað.

Breiðholt.
Breiðholt. mbl.is/Sigurður Bogi

Ætluðu að taka hlutdeildarlán

Spurður hvers vegna hann fluttist til Íslands segist Kowalik hafa kynnst konunni sinni hér. Ísland sé líka góður staður til að búa á, öruggur, fallegur og heilbrigðiskerfið gott.

Eftir að hafa flakkað á milli nokkurra leiguíbúða í Vesturbænum ákváðu þau að reyna að kaupa íbúð í gegnum Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, HMS, sem býður upp á svokölluð hlutdeildarlán, sem eru úrræði fyrir tekju- og eignaminna fólk. Þau er eingöngu veitt til kaupa á nýjum íbúðum sem eru samþykktar af stofnuninni, með þeirri undantekningu að hægt er að lána vegna kaupa á eldri íbúðum utan höfuðborgarsvæðisins. Lántakandi leggur fram eigið fé sem þarf að vera að lágmarki 5%. HMS veitir kaupanda hlutdeildarlán fyrir allt að 20% kaupverðs til að brúa bilið og eru engir vextir eða afborganir af láninu. Lántaki endurgreiðir aftur á móti lánið þegar hann selur eignina eða við lok lánstíma.

Vandamálið var að hjónin fundu engar íbúðir í gegnum HMS í Vesturbænum, þar sem þau vildu helst búa, eða annars staðar í Reykjavík. Einhverjar íbúðir komu til greina á öðrum svæðum en voru fljótar að seljast upp. HMS talaði um að þau gætu hugsanlega boðið þeim íbúð í Njarðvík en ekkert varð af því. Á endanum ákváðu hjónin að kaupa íbúð á almenna markaðnum og reyna að fá eitthvað, einhvers staðar sem þau hefðu efni á og gæti rúmað fjölskylduna.

Kowalik og fjölskylda hafa lent í ýmiss konar erfiðleikum hérlendis.
Kowalik og fjölskylda hafa lent í ýmiss konar erfiðleikum hérlendis. mbl.is/Hákon

Þau rákust á þessa þriggja herbergja íbúð í Breiðholtinu en fram að því höfðu þau aldrei spáð í að búa þar. „Við hefðum getað verið áfram á leigumarkaðnum en það er ómögulegt að finna eitthvað þar. Við vildum ekki vera í stöðu þar sem við vissum ekki hvar við myndum búa á næsta ári og hvar við ættum að setja börnin í leikskóla. Það er ómögulegt að lifa þannig. Við ákváðum því að taka út allt spariféð okkar,” segir Kowalik. Þau þurftu að taka um 47 milljóna króna lán, en íbúðin kostaði um 55 milljónir króna.

Fólk í háum stöðum sem hefur rangt fyrir sér

Hann lýsir húsnæðismarkaðnum í maí í fyrra, þegar vinur hans keypti íbúð, sem klikkuðum þar sem eftirspurnin var langt umfram framboðið. Síðasta haust var markaðurinn tekinn að kólna sökum hárrar verðbólgu og hárra vaxta. Þegar þau tóku lánin fyrir íbúðinni voru vextir um 5,5% og afborgunin um 300 þúsund krónur, að sögn Kowalik.

„Það var mikil byrði fyrir okkur en við héldum að þetta væri bara tímabundið. Myndin sem seðlabankastjóri dró upp á þeim tíma var uppfull af von. Samkvæmt spám þeirra átti verðbólgan að ná hámarki í febrúar [á þessu ári] og vextirnir áttu ekki að hækka nema í mesta lagi upp í um 6 til 6,5%. Með því að treysta þessum sérfræðingum var ég rólegur varðandi lánin okkar. Ég bjóst ekki við því að fólk í svona háum stöðum gæti haft svona rangt fyrir sér og ekki bara í eitt skipti,” greinir hann frá og hristir hausinn.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningastefnu.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningastefnu. mbl.is/Hákon

Næstu mánuðina héldu vextirnir áfram að hækka og afborgun þeirra af láninu sömuleiðis. Eins og áður sagði er hún núna komin í um 450 þúsund krónur á mánuði. Kowalik tekur fram að mánaðartekjur heimilisins eru um 800 þúsund á mánuði fyrir skatta og afborgunin því einfaldlega of mikil byrði fyrir fjölskylduna.

Hvernig leið þér þegar vextirnir hækkkuðu um 1,25% fyrr í vikunni?

„Mig langaði bara að gráta. Það versta við þetta er að þú hefur ekkert val. Þú getur ekkert gert. Vandinn er að við erum með 800 þúsund krónur fyrir fjögurra manna fjölskyldu. Eina leiðin er að borga eða selja, eða taka verðtryggt lán [í gegnum endurfjármögnun]. Þá hækkar höfuðstóllinn og þú átt ekkert eigið fé eftir í vasanum," svarar hann og hefur greinilega litlar mætur á verðtryggðum lánum. 

mbl.is/Hákon

„Á endanum vinnur bankinn alltaf“

Spurður kveðst Kowalik hafa fengið góðar upplýsingar um muninn á verðtryggðum og óverðtryggðum lánum hjá bankanum þegar lánin tvö voru tekin. Ákvörðunin um óverðtryggð lán á breytilegum vöxtum hafi alfarið verið þeirra hjóna. Þau vissu að greiðslubyrðin yrði lægri með verðtryggða láninu en að höfuðstóllinn myndi hækka. Völdu þau frekar óverðtryggðu lánin og treystu á að vextirnir myndu lækka smám saman. Hann segir báðar útgáfurnar af lánunum í raun vera slæmar og bætir við: „Á endanum vinnur bankinn alltaf”.

Hann segist hafa tekið lán með breytilegum vöxtum því þau hafi trúað því að vextirnir væru komir í topp og myndu fara lækkandi. „Við trúðum of mikið á það sem fólk í háum stöðum segir,” bætir Kowalik við og nefnir sem dæmi Reykjavíkurborg í tengslum við leikskólana, HMS og Ásgeir Jónsson seðlabankastjóra. „Hér erum við stödd í dag. Þau ætla sér ekkert illt. Allir geta gert mistök en mistökin þeirra hafa kostað okkur mikla streitu og peninga.”

Ásgeir Jónsson.
Ásgeir Jónsson. mbl.is/Hákon

Ekkert hægt að slaka á 

Inntur eftir því hvernig þau fara að því að borga af lánunum segist hann vinna jafnmikið og hann gerði þegar þau voru að safna fyrir innborgun fyrir íbúðinni og lögðu mikið á sig í þeim efnum. Hann hafi því ekkert getað slakað á þrátt fyrir að hafa tryggt sér þak yfir höfuðið. Núna hefur Kowalik einnig brugðið á það ráð að selja hjólið sem hann keypti fyrir fyrirtækið Coffee Bike sem hann setti á laggirnar á sínum tíma sem aukabúgrein. Sá bissness hefur núna verið settur á hilluna. Konan hans byrjar síðan að vinna í haust og þá vænkast hagur þeirra eitthvað.

Þrátt fyrir erfitt ástand segist hann ekki hafa hug á því að flytja aftur til Póllands og vonar þess í stað að stjórnvöld grípi inn í stöðu mála vegna vaxtastigsins og verðbólgunnar og horfi jafnvel til HMS og hlutdeildarlánanna í hans tilfelli. „Akkúrat núna þá er ég fastur hér. Ég þarf að vinna eins mikið og ég get til að borga reikningana. Ég get ekki farið í frí með fjölskyldunni, ég get ekki keypt neitt og eins og þú sérð eru veggirnir auðir. Það er ekkert hér. Allir peningarnir fara í reikninga til að lifa af,” greinir Kowalik frá og vonar að ljós sé við enda ganganna.

mbl.is/Hákon

„Ég elska að búa hér. Fólkið, veðrið,” segir hann og lítur út um gluggann hlæjandi. „Reyndar ekki veðrið en það er fallegt hérna og gott að búa. Hér er öryggi. Vissulega eru vandamál hér eins og annars staðar en ég vil samt búa hérna. Samfélagið er lítið og fólk þekkir hvert annað og talar saman. Ég vona að það verði hægt að leysa þetta vandamál sem allra fyrst.”

mbl.is

Bloggað um fréttina