Ökumaður með hníf til að verja sjálfan sig

Lögreglan að störfum.
Lögreglan að störfum. mbl.is/Hari

Ökumaður var stöðvaður í umferðinni í umdæmi lögreglunnar í Hafnarfirði. Hann reyndist sviptur ökuréttindum, undir áhrifum vímuefna auk þess að vera með hníf á sér sem hann sagðist nota til þess að verja sjálfan sig.

Maðurinn var látinn laus að blóðsýnatöku lokinni.

Braut í sér tennur á rafskútu

Ökumaður rafskútu varð í sama umdæmi fyrir því óláni að hrasa og brjóta í sér tennur. Þá mældist hann langt yfir refsimörkum áfengis og gat því ekki stýrt rafskútunni með öruggum hætti. Á hann yfir höfði sér kæru vegna þessa, að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Ekki með handfrjálsan búnað

Ökumaður flutningabifreiðar var stöðvaður í akstri í umdæmi lögreglunnar á Hverfisgötu í Reykjavík sökum þess að hann notaðist við farsíma við aksturinn án handfrjáls búnaðar. Við frekari skoðun kom í ljós að ökumaðurinn var ekki með ökumannskort í bifreiðinni og verður hann einnig kærður fyrir það.

Nokkuð var um hraðakstur í umdæminu og þar ók sá hraðasti á 127 km/klst. hraða þar sem leyfður hámarkshraða er 80 km/klst.

Tilkynnt var um eld í bifreið og sá slökkviliðið um að slökkva hann.

Lögreglunni á Vínlandsleið barst tilkynning um þjófnað úr verslun og var málið afgreitt á vettvangi.

mbl.is