Vextir á námslánum orðnir áhyggjuefni

Óverðtryggð námslán náðu 9%-vaxtaþaki í apríl.
Óverðtryggð námslán náðu 9%-vaxtaþaki í apríl. Ljósmynd/mbl.is

Gísli Laufeyjarson Höskuldsson, lánasjóðsfulltrúi Stúdentaráðs Háskóla Íslands, segist hafa miklar áhyggjur af stöðu námslána, bæði í ljósi stýrivaxtahækkana Seðlabanka Íslands og vegna þess að vaxtaþak á óverðtryggðum námslánum er að hans mati of hátt.

„Stúdentar á Íslandi búa við sérstaklega bág kjör vegna þess að stuðningur við þá hefur verið afar ófullnægjandi um árabil,“ segir Gísli í samtali við mbl.is. Hann bendir á að Menntasjóður námsmanna (MSN) sé ekki að sinna lögbundnu hlutverki sínu sem svokallað félagslegt jöfnunartól.

„Þegar verðbólgan svífur í hæstu hæðum, eins og hún gerir nú, hefur það svo sannarlega slæm áhrif á stöðu stúdenta, bæði á almennan hátt og svo vegna áhrifanna sem hún hefur á öll hjálpartæki stúdenta, svo sem námslán og möguleika til leigu á stúdentagörðum,“ segir hann og bætir við að bæði leiguverð á stúdentagörðum og vextir af námslánum hækki.

„Nú vekur brothætt staða stúdenta áhyggjur mínar af því að það gangi á mörk þess sem margir stúdentar ráða við fjárhagslega.“

Gísli Laufeyjarson Höskuldsson, lánasjóðsfulltrúi Stúdentaráðs Háskóla Íslands.
Gísli Laufeyjarson Höskuldsson, lánasjóðsfulltrúi Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Ljósmynd/Aðsend

Vextir á námslánum aldrei verið hærri

Gísli segir að vextir af námslánum hafi aldrei verið hærri. Vextir af verðtryggðum lánum séu komnir í 2,9% og vextir af óverðtryggðum hafi setið sem fastast í vaxtaþakinu, þ.e. í 9%, síðan í apríl.

„Það sýnir raunar vel hvað þakið er hátt, að það hafi ekki haft áhrif fyrr en svo seint þrátt fyrir langa verðbólgutíð,“ segir hann. Þess vegna eigi hann ákaflega bágt með að sjá námslán sem hagstæð lán við þessar aðstæður, þegar vaxtakjör af þeim eru „eins og af hverju öðru húsnæðisláni“. Hann segist einnig hafa áhyggjur af því að, ef greiðslustaða heimilanna versni, geti vextir hækkað í takt við það hvernig gengur að borga af lánunum.

„Það getur með öðrum orðum gerst, vegna ákvæða í lögum um menntasjóðinn, að ef fólk greiðir ekki af lánunum veltist vaxtabyrðin yfir á aðra greiðendur næst þegar úthlutunarreglur eru samþykktar af stjórn sjóðsins,“ segir hann.

Stýrivextir hafi auðvitað mikil og þung áhrif í þeim málum en mest er hann vonsvikinn yfir því að ákveðið hafi verið að leggja vaxtaþakið svo hátt „með tilliti til þess að námslán eiga að vera eins hagstæð og mögulegt er“. Hann telur það vera sanngirniskrafa að hagstjórnartæki eigi ekki að geta haft svona mikil áhrif á námslánakjör.

„Kerfið þarf ekki að vera með þessum hætti“

Í haust liggur fyrir að endurskoða lög um MSN, sem gert er á þriggja ára fresti. Stúdentaráð er búið að móta sérstaka stefnu í þeim málum en Gísli segir að síðustu lagabreytingar um MSN árið 2020 hafi haft slæmar breytingar í för með sér.

„Sú ákvörðun var tekin að lán skyldu bera mun hærri vexti en nokkru sinni hafði sést,“ segir Gísli og bætir við að ef litið sé á þróun laga um námslán sjáist vel að lánin hafi orðið óhagstæðari með árunum.

„Þess má líka geta að fram til ársins 1992 féllu lán niður þegar lánþegi hafði greitt af þeim um visst árabil, en nú nýtur þess ekki við og það hefur haft þær afleiðingar eins og flestir íslendingar þekkja að námslánin voma yfir lántakendum langt fram eftir öllum aldri. Ekki skánar það með hækkun vaxta eins og ákveðið var að gera með nýju lögunum,“ segir Gísli.

„Kerfið þarf ekki að vera með þessum hætti og ég held að nú sé kominn tími á að við spyrjum okkur hvort að það sé virkilega leiðin sem við viljum fara,“ segir hann að lokum.

mbl.is