Vilja ekki frumsýna á Facebook

Birtingarfé myndi að mestu flytjast erlendis ef RÚV myndi hverfa …
Birtingarfé myndi að mestu flytjast erlendis ef RÚV myndi hverfa af auglýsingamarkaði, samkvæmt rannsók Háskólans á Bifröst. mbl.is/Eggert Jóhannesson

36 prósent auglýsenda myndu draga úr framleiðslu auglýsinga eða flytja til erlendra aðila ef RÚV yrði tekið af auglýsingamarkaði. Auglýsendur eru almennt hlynntir óbreyttri stöðu RÚV á auglýsingamarkaðinum. 

Þetta kemur fram í rannsókn Ragnars Más Vilhjálmssonar, aðjúnkts við Háskólann á Bifröst. Niðurstöður hennar voru kynntar á málstofu háskólans, í samstarfi við ÍMARK og Samband íslenskra auglýsingastofa, í morgun. Fjórir stjórnendur úr auglýsingabransanum ræddu niðurstöður rannsóknarinnar í pallborðsumræðum.  

Viðvera RÚV á auglýsingamarkaðinum hefur lengi verið í umræðunni og margir hafa gert þá kröfu að ríkisrekinn miðill verði tekinn af auglýsingamarkaði þar sem hann eigi ekki erindi í samkeppni við einkarekna miðla. 

Myndi færast á Youtube og Meta

Könnunin sýnir fram á að birtingarfé myndi færast að einhverju leyti innanlands ef RÚV hyrfi af auglýsingamarkaði, en myndi að mestu dragast saman eða færast erlendis á miðla eins Youtube og Meta, móðurfyrirtæki Facebook og Instagram.

Meirihluti auglýsenda telja að fjarvera RÚV myndi hafa mikil áhrif á getu sína til að ná auglýsingamarkmiðum, og voru tveir af hverjum þremur fylgjandi óbreyttu fyrirkomulagi RÚV á auglýsingamarkaði.

Hjalti Harðarson, markaðsstjóri Landsbankans, Þyrí Dröfn Konráðsdóttir, markaðsstjóri N1, Ingibjörg Ásdís Ragnarsdóttir, framkvæmdastjóri sölu og þjónustu hjá VÍS og Þorgrímur Ingason, birtingastjóri Birtingahússins sátu í pallborði málstofunnar og ræddu niðurstöður rannsóknarinnar.

Bjóða upp á sama hlutinn og fyrir 10 árum síðan.

Öll sögðu þau slíka breytingu hafa gríðarleg áhrif, en að auðvitað myndi markaðurinn bregðast við og finna nýjar leiðir. Auglýsingastörf yrðu með breyttu móti og ný áskorun fyrir auglýsendur en fjölmiðlamarkaðurinn sé ekki mjög fjölbreytilegur eins og er.

Kvaðst Hjalti vilja sjá íslenska vefmiðla þróa sína tækni betur, því eins og er bjóði erlendir miðlar einfaldlega betri og þægilegri þjónustu.  

„Þau eru að bjóða upp á sama hlutinn og fyrir 10 árum síðan.“

Engum í hag

Þá sögðu þau öll að brottför RÚV af markaðinum væri ekki endilega auglýsendum í hag og myndi hafa áhrif á framleiðslu og sennilegast draga hana saman að einhverju leyti. 

Sagði Þyrí ímyndardrifna auglýsendur eins og N1 ekki langa sérstaklega til að frumsýna á Facebook og þá frekar sleppa því að fara í jafn dýra framleiðslu og tíðkast fyrir stórar herferðir. 

Benti Þorgrímur þá einnig á að auglýsendur tapi virðisaukaskatti af auglýsingum við af flytja birtingu út fyrir landsteinanna.

„Það er bara engum í hag þannig séð. Þetta eru áhrifaríkir miðlar og allt það, en engan veginn sami burður í því og að birta á RÚV.“

mbl.is

Bloggað um fréttina