Vilja herða lántökuskilyrði fasteignalána

Ásthildur Lóa Þórsdóttir er þingkona Flokks Fólksins og meðal flutningsmanna …
Ásthildur Lóa Þórsdóttir er þingkona Flokks Fólksins og meðal flutningsmanna frumvarpsins mbl.is/Hákon

Þingmenn Flokks Fólksins hafa lagt fram frumvarp til breytingar á lögum um fasteignalán sem herðir lántökuskilyrði fyrir kaupendur íbúðarhúsnæðis sem eiga tvær eða fleiri íbúðir fyrir.

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að tilgangurinn sé að draga úr eftirspurn eftir húsnæði sem ekki er fyrir eigin afnot. Jafnframt á það að auka möguleika fólks sem er í leit að húsnæði til eigin afnota til að koma þaki yfir höfuðið.

Tímabundnar ráðstafanir

Lagt er til að ef neytandi er þinglýstur eigandi tveggja eða fleiri fasteigna sem eru skráðar sem íbúðarhúsnæði, skal hámark veðsetningarhlutfalls fyrir þriðju fasteignina vera 50% og lækka um tíu prósentustig fyrir hvert íbúðarhúsnæði til viðbótar.

Þá er jafnframt lagt til að óheimilt sé að taka mið af væntum tekjum af útleigu íbúðarhúsnæðisins við útreikning greiðslubyrðar ef neytandi er þinglýstur eigandi tveggja eða fleiri íbúða.

Loks segir í frumvarpinu að gert er ráð fyrir að umræddar þrengingar lántökuskilyrða verði tímabundnar þar til jafnvægi er náð á húsnæðismarkaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert