Vill sameina tíu stofnanir í þrjár

Guðlaugur Þór Þórðarson.
Guðlaugur Þór Þórðarson. mbl.is/Sigurður Bogi

Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfisráðherra hyggst færa tíu ríkisstofnanir undir hatt þriggja. Frumvarp þess efnis hefur verið sent til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda.

Að óbreyttu mun Náttúruverndar- og minjastofnun sjá um málefni sem fallið hafa undir stofnanir Vatnajökulsþjóðgarðar, Þjóðgarðsins á Þingvöllum, náttúruverndarsvið Umhverfisstofnunar og Minjastofnunar.

Veðurstofan undir náttúruvísindastofnun

Undir Náttúruvísindastofnun fara Náttúrufræðistofnun Íslands, Náttúrurannsóknarmiðstöðin við Mývatn (RAMÝ), Veðurstofa Íslands, Landmælingar Íslands og ÍSOR.

Loftlagsstofnun mun fara með málefni Orkustofnunar og Umhverfisstofnunar.

„Gert er ráð fyrir skýrum kjarna í starfsemi hverrar stofnunar og sveigjanleika í tilfærslum verkefna til og frá stofnunum með enn frekari árangur, skilvirkni og hagræðingu í huga og er sameiningin til þess fallin að styðja vel við faglegar áskoranir og markmið ráðuneytisins. Hún fellur sömuleiðis vel að áformum stjórnvalda um sameiningar stofnana og einföldun og skilvirkni opinberrar stjórnsýslu,“ segir í áformum um lagasetninguna.

Taki hálft ár frá samþykki frumvarps

Málið á rætur sínar að rekja til þess í að í janúar kynnti Guðlaugur í ríkisstjórn þá tillögu stýrihópsins í ríkisstjórn að sameina tíu stofnanir í þrjár stofnanir sem bæru ábyrgð á helstu málaflokkum ráðuneytisins.

Þá segir að gera megi ráð fyrir að a.m.k. hálft ár þurfi að líða frá samþykki frumvarpsins, ef af því verður, og þar til það getur tekið gildi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert