Biðja rússnesku þjóðina afsökunar

Myndin sem Skotfélag Húsavíkur biður rússnesku þjóðina og leiðtoga hennar …
Myndin sem Skotfélag Húsavíkur biður rússnesku þjóðina og leiðtoga hennar afsökunar á. Skjáskot/Facebook-síða Skotfélags Húsavíkur

Stjórn Skotíþróttafélags Húsavíkur hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna máls sem mbl.is hefur fjallað um í kvöld og snýst um mynd af Rússlandsforseta sem birt var með auglýsingu um skotmót félagsins. Fer yfirlýsingin í heild sinni hér á eftir.

Í ljósi myndbirtinga af skotskífumynd sem ekki hefði átt að eiga sér stað á heimasíðu félagsins vill stjórn biðja alla hlutaðeigandi afsökunar og þá sérstaklega rússnensku þjóðina og leiðtoga hennar.

Það er skýr stefna skotíþróttafélaga að skotfimi snýst um íþróttir þar sem skotið er á keppnisskotmörk og fyrirbýður félagið sér alla nálgun við ofbeldi og glæpi sem tengst gætu skotíþróttabyssum.

Það hefur verið kappsmál innan hreyfingarinnar í áraraðir að þjálfa íþróttafólk og auka skilning almennings og yfirvalda á gildi skotíþrótta og kenna ábyrga meðferð á skotíþróttabyssum.

Það er því sem tilkynnt er að einstaklingurinn sem í hlut átti var umsvifalaust vísað frá öllum ábyrgðarstörfum fyrir félagið og sætir agaúrræðum sem íþróttahreyfingin býður upp á í sínum lögum og reglum.

Stjórn Skotfélags Húsavíkur vonar að þetta mál dragi ekki skugga á það frábæra starf sem unnið hefur verið á sviði skotíþrótta og þann frábæra árangur sem íslenskt skotíþróttafólk er að sýna á smáþjóðaleikum á Möltu þessa dagana.

Undir yfirlýsinguna ritar Hallur Þór Hallgrímsson, formaður félagsins, fyrir hönd stjórnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert