Bíllinn varð alelda á tæpum 5 mínútum

„Maður hugsar náttúrlega eftir á „Jesús hvað ef við hefðum við bara setið aðeins lengur með eldinn undir okkur?““ segir Margrét Ásta Ívarsdóttir í samtali við mbl.is en á nokkrum mínútum varð bíll fjölskyldu hennar alelda.

Margrét, eiginmaður hennar og tvö yngstu börnin þeirra voru á leið heim í Kópavog frá Akureyri á mánudagskvöld þegar allt í einu kviknaði olíuljós í mælaborði bílsins. 

„Bíllinn byrjar svona aðeins að hökta svo að ég keyri út í kant,“ segir Margrét en þau voru þá rétt við Víðigerði nærri Hvammstanga.

Margrét hélt á þeim tímapunkti að bíllinn væri að bila.

Heimskulegt að ná í töskunnar

Hún lítur þá í hliðarspegilinn og sér reyk undan bílnum. 

„Maður er búin að heyra svo oft að það sé að kvikna í bílum. Þannig að ég var einhvern veginn strax viss um að það væri kviknað í bílnum. Ég ríf börnin úr beltum, tók þau fram í og við hlupum út,“ segir Margrét og bætir við að á þeim tímapunkti hafi ekki verið sjáanlegur eldur. 

Eiginmaður hennar kíkti þá undir bílinn og sá að það var kviknað í honum. Hann náði snöggvast í tvær ferðatöskur sem voru í skotti bílsins. Margrét segir að eftir á að hyggja hafi það ekki verið gáfulegt í ljósi þess hversu fljótt bíllinn varð alelda. 

„Allt í einu blossar upp eldurinn á fullu“

„Svo bara allt í einu blossar upp eldurinn á fullu,“ segir hún og bætir við að bíllinn hafi staðið þá í ljósum logum. 

Bíllinn var einungis fimm eða sex ára gamall að sögn …
Bíllinn var einungis fimm eða sex ára gamall að sögn Margrétar. Ljósmynd/Aðsend

Margrét segir að um tvær mínútur hafi liðið frá því að olíuljósið kviknaði þar til fjölskyldan var komin út úr bílnum. 

„Svo kannski líða tvær þrjár mínútur þangað til að bíllinn er bara í ljósum logum.“

Því hafa einungis liðið um fimm mínútur frá því að ljósið kviknaði þar til bíllinn varð alelda. 

Börnin sturluð úr hræðslu

Fjölskyldan hringdi strax á Neyðarlínuna er þau sáu eldinn undan bílnum. Margrét segir að margir bílar hafi keyrt fram hjá fjölskyldunni áður en bíllinn þeirra stóð í ljósum logum. 

„Sem mér fannst ótrúlega leiðinlegt. Sjá okkur þarna – rýkur úr bílnum – með börnin sturluð úr hræðslu.“

Þegar meiri eldur kviknaði stoppaði fólk hins vegar, þar á meðal lögreglukona á frívakt. 

Hún tók yfir vettvanginn að sögn Margrétar og lokaði umferð í báðar áttir. 

„Svo var hún svo indæl að hún tók okkur upp í og skutlaði okkur heim.“

Margrét segir að nánast ekkert hafi verið eftir af bílnum er fjölskyldan fór af vettvangi. 

2017 eða 2018 módel

Bíllinn var einungis fimm eða sex ára gamall að sögn Margrétar. Þá hefur fjölskyldan farið með hann í allar þjónustuskoðanir og smurningar. 

Þannig að það var í raun ekkert sem þið hefðuð getað gert öðruvísi?

„Nei. Þannig að ég sat náttúrulega og hugsaði bara „hvernig gerist svona?“ En við fáum líklega aldrei svör við því af því það er í raun ekkert eftir til þess að rannsaka.“

mbl.is

Bloggað um fréttina