Sólarleysismetið gæti fallið

Ferðamenn og aðrir vegfarendur í miðbæ Reykjavíkur og víðar um …
Ferðamenn og aðrir vegfarendur í miðbæ Reykjavíkur og víðar um land hafa margsinnis orðið að grípa í regnhlífarnar í maímánuði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Líkur eru á því að rúmlega 70 ára gamalt sólarleysismet fyrir maímánuð í Reykjavík falli. Og það sem meira er, úrkomumet mánaðarins gæti einnig fallið.

„Jú, við eigum enn möguleika á að lenda á sólarbotninum,“ segir Trausti Jónsson veðurfræðingur. Fæstar mældust sólskinsstundirnar í Reykjavík til þessa í maí 1951, eða 102,2. Þegar Trausti tók stöðuna á mánudagskvöld voru sólarstundirnar orðnar 93,5 og þrír dagar eftir af mánuðinum. Mælist sólskinsstundir þeirra færri en 8,8 verður mánuðurinn nú sá sólarlausasti frá upphafi mælinga – annars lifir metið frá 1951, segir Trausti.

Samanburðurinn við maímánuð í fyrra er óhagstæður. Þá mældust sólskinsstundir mánaðarins í Reykjavík 259,3, en það var rúmum 50 stundum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Sólskinsstundir hafa verið mældar í Reykjavík og nágrenni frá árinu 1911 en reyndar vantar mælingar fyrir maí 1921.

Úrkoman í Reykjavík í maí var orðin 118,3 millimetrar á mánudagskvöld. Metið fyrir mánuðinn er frá 2018 en þá mældist heildarúrkoma maímánaðar 128,8 mm. Það þarf því 10,6 millimetra í úrkomumæla Veðurstofunnar til að komast upp fyrir það. Það er alls ekki útilokað, telur Trausti. Hafa ber í huga að úrkomumánuðurinn endar með mælingu kl. 9 að morgni hinn 31. maí. Það sem fellur síðdegis þann dag telst til júnímánaðar.

Heildarúrkoma maímánaðar í fyrra í Reykjavík mældist 44 millimetrar, eða um 84% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Samfelldar úrkomumælingar hófust í Reykjavík 1920, en áður hafði verið mælt á árunum 1884-1907 og 1829-1854. Hiti er hins vegar nærri meðallagi í höfuðborginni í maí sem senn er liðinn, segir Trausti.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina