Starfsfólk „ekki eintómar tölur í excel-skjali“

BSRB hélt baráttufund í Bæjarbíó Hafnarfirði í dag vegna kjaradeilu …
BSRB hélt baráttufund í Bæjarbíó Hafnarfirði í dag vegna kjaradeilu bandalagsins við Samband íslenskra sveitarfélaga. mbl.is/Arnþór

„Viðsemjendur okkar virðast stundum ekki skilja að þetta eru ekki eintómar tölur í excel-skjali, heldur er verið að taka ákvarðanir sem hafa áhrif á lífsgæði og starfsánægju starfsfólk,“ sagði Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, á baráttufundi í Bæjarbíó Hafnarfirði í dag.

Á fundinum, sem haldinn var vegna kjaradeilu bandalagsins við Samband íslenskra sveitarfélaga, fluttu félagsmenn ræður en auk þess voru skemmtiatriði inni á milli. Þórarinn Eyfjörð, varaformaður BSRB og formaður Sameykis, stýrði fundinum.

Sonja Ýr sagði í upphafi ræðu sinnar að ef einhver hefði sagt henni fyrir nokkrum árum að félagsfólk BSRB væri að biðja um sömu laun fyrir sömu störf árið 2023, myndi hún hafa haldið að það væri grín.

Hún sagði einnig að sá launamismunur sem félagið sé að óska eftir leiðréttingu á muni 25 prósentum á ársgrundvelli.

Öll spilin á borði

Sonja sagði að BSRB hafi lagt öll sín spil á borðið fyrir löngu „þrátt fyrir að þið kunnið að heyra annað í fjölmiðlum“.

„Þessi ákvörðun sveitarfélaga um að fara í störukeppni við sitt eigið starfsfólk vegna þeirra sanngjörnu krafna sýnir óbilgirni og þrjósku og þar er ekki verið að taka tillit til þess að verkföll feli í sér miklu hærri fórnarkostnað fyrir samfélagið allt vegna þessar skerðingar á grunnþjónustu,“ sagði Sonja.

„Opinberir starfsmenn hafa í gegn um tíðina þurft að berjast að hörku fyrir kjörunum sínum og nú tökum við enn einn slaginn til að ná okkar markmiðum. Þetta er ekki staðan sem við óskuðum okkur en þegar reynir á okkar sterkasta vopn, þá beitum við því.“

Sonja Ýr, formaður BSRB, segir að sveitarfélögin séu í störukeppni …
Sonja Ýr, formaður BSRB, segir að sveitarfélögin séu í störukeppni við sitt eigið starfsfólk. mbl.is/Arnþór

Ekki að biðja um gull og gersemar

Áður en Sonja tók til orðs flutti Magdalena Anna Reimus, leiðbeinandi við leikskólann Hulduheima á Selfossi, fyrstu ræðu fundarins. Hún kvaðst vera sár yfir því að hún geti ekki starfað vegna þess að hún þurfi að berjast fyrir réttum kjörum

„Við erum ekki að biðja um gull og gersemar. Við erum að biðja um sömu laun fyrir sömu störf,“ sagði Magdalena í ræðu sinni.

Aníta Ósk Georgsdóttir, stuðningsfulltrúi í Háaleitisskóla í Reykjanesbæ, flutti næstu ræðu þar sem hún sagði að það væri sárt að finna fyrir mismunun í starfi. Hún segir verkföllin ekki aðeins bitna á starfsfólki heldur líka börnunum sem það sinnir en hún sinnir börnum með greiningar.

„Það er ótrúlega leiðinlegt að staðan sé þannig að við þurfum að fara í verkfall til þess að hlustað sé á okkur,“ sagði Aníta.

Anna Reimus, leiðbeinandi við leikskólann Hulduheima á Selfossi, flutti fyrstu …
Anna Reimus, leiðbeinandi við leikskólann Hulduheima á Selfossi, flutti fyrstu ræðu fundarins. mbl.is/Arnþór

Baráttuandi í Bæjarbíó

Í upphafi fundar setti Lúðrasveit verkalýðsins tóninn og marseraði inn í fundarsal og spilaði Internationalinn, baráttusöng verkalýðsins. Á hún þannig að hafa blásið baráttuanda í fundargesti. Eftir baráttusönginn alþjóðlega sló sveitin á aðra strengi og tók lagið París norðursins eftir tónlistarmanninn Prins Póló.

Þar að auki tóku Lilja Björk Jónsdóttir söngkona og Bóas Gunnarsson trúbador nokkur lög á milli ræða en Bóas er einnig í verkfalli. Síðan var það enginn annar en þjóðþekkti söngvarinn Friðrik Dór sem flutti nokkur lög fyrir fundargesti.

Lúðrasveit Verkalýðsins blés baráttuanda í fundargesti.
Lúðrasveit Verkalýðsins blés baráttuanda í fundargesti. mbl.is/Arnþór
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert